„Þetta mál þarfnast skýringa“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Ómarsson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kannast ekki við að hafa gefið leyfi fyrir lágflugi herflugvélar yfir miðborginni í morgun. Herflugvél flaug yfir borgina í tengslum við flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli.

„Það hefur verið deilt um flest á Reykjavíkurflugvelli nema það að herflugvélar eiga þar ekki heima nema sem þátttakendur í björgunartengdum verkefnum eða öðrum sérstökum ástæðum. Herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli eru þvert á móti skýrt brot á samningi ríkis og Reykjavíkurborgar frá 2013 sem tilgreinir einmitt þetta,“ skrifar Dagur á Facebook-síðu sína og bætir við að Hæstiréttur hafi dæmt að samningurinn sé í fullu gildi.

Herflugvélin.
Herflugvélin. mbl.is/Golli

„Ítrekað lágflug svo hávaðasamra véla einsog átti sér stað í dag yfir íbúðabyggð og friðlandi fugla á viðkvæmasta varptíma er jafnframt fáránlegt og án efa brot á starfsleyfi flugvallarins,“ skrifar borgarstjórinn og bendir á að skrautflug farþegavéla flugfélaga í tilefni afmælis geti við og verið skemmtileg, enda eðli málsins samkvæmt sérstök undantekningartilvik.

Gríðarlega hávaðasamar herflugvélar í lágflugi eru annað mál. Þetta mál þarfnast skýringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert