Brá svakalega að stíga á vigtina

Gréta var orðin 120 kíló þegar hún gekkst undir magabandsaðgerð …
Gréta var orðin 120 kíló þegar hún gekkst undir magabandsaðgerð fyrir tæpum sjö árum og hefur haldið sér í kjörþyngd síðan. Ásdís Ásgeirsdóttir

Gréta var orðin 120 kíló aðeins 19 ára gömul. Hún fór til Bretlands og var au pair-stúlka hjá Auðuni og konu hans, sem einnig er læknir. Segist hún þá hafa farið að forvitnast um magabandið. „Ég fór hægt og rólega að kynna mér þetta. Auðuni fannst ég fullung en ég var fljótt harðákveðin í að fara í aðgerðina.“

Ef við spólum lengra til baka, varstu of þung sem barn?

„Nei, ég var alltaf rosa fín. Það var svona upp úr fimmtán ára að ég fór að þyngjast. Reyndar var ég alltaf með hærra BMI en vinkonur mínar og upplifði mig svakalega feita, þó að ég hafi verið í kjörþyngd. Svo fannst mér ég ekkert fitna fyrr en ég var allt í einu orðin mjög feit. Þetta er mjög skrítið, mér fannst ég ekki svo rosalega feit eins og ég sé í dag á myndum að ég var orðin. Ég auðvitað forðaðist allar vigtar og klæddi þetta mikið af mér,“ segir Gréta. „Svo var ég orðin tæp 120 kíló þegar ég fór á vigt eftir að hafa forðast hana í rosalega langan tíma. Ég hélt að ég væri svona 90-95, og mér brá svakalega.“

Gréta var orðin 120 kíló aðeins 19 ára gömul. Í …
Gréta var orðin 120 kíló aðeins 19 ára gömul. Í dag er hún í kringum 70 kíló og heldur sér í kjörþyngd með hjálp magabandsins. Ásdís Ásgeirsdóttir

Fannst þér þú borða meira en aðrir?

„Mér fannst það aldrei! En eftir á að hyggja borðaði ég miklu meira en allir aðrir. Í dag borða ég svipað og vinkona mín sem er í kjörþyngd en þá skildi ég ekki af hverju ég var feitari en hún. Mér fannst ég borða jafn mikið en þá var ég kannski búin að borða samloku með skinku og osti klukkutíma áður en við fórum út að borða. Svo var ég líka að borða mörgum sinnum á dag.“
Gréta fór í magabandsaðgerð í október 2010 og sér ekki eftir því.

Fegin að hafa ekki dregið þetta

„Í dag er ég svo fegin að ég var ekki að draga þetta. Ég var búin að prófa Herbalife, ég var búin að prófa OA, búin að prófa einkaþjálfun og matarprógramm og ætlaði alltaf að massa allt! Byrjaði rosa dugleg. Þegar maður byrjar á einum af þessum kúrum er maður að snúa lífinu á hvolf í einum rykk. En svo er þetta ennþá lífið þitt. Þetta er rosalega óraunhæft. Ég tek hattinn ofan af fyrir fólki sem nær að taka kílóin af og halda því. Mig vantaði bara að hafa stjórn á mataræðinu. Og bandið gaf mér það, algerlega. En ég vann líka mjög hart að því með bandinu og fór alveg eftir þeim átta reglum sem á að fylgja.“

Gréta er nánast óþekkjanleg á myndum sem voru teknar þegar …
Gréta er nánast óþekkjanleg á myndum sem voru teknar þegar hún var sem þyngst.

Hvað gerir þú til að vinna með bandinu?

„Það er t.d. talað um að allir drykkir sem innihalda kaloríur séu bannaðir, eins og gos og ávaxtasafi. Svo gaf bandið mér stjórnina og ég náði utan um mataræðið, öðlaðist einhverja ró og gat þ.a.l. farið að taka hollari mat inn í mataræðið. Ef ég borða of mikið af kaloríuríkum mat er ég ekki að missa mig yfir því, heldur tek þá bara hollari mat næstu daga á eftir. Svona eins og venjulegt fólk gerir.“

Ætlaði að verða mjó of hratt

Hefurðu fundið fyrir einhverjum neikvæðum hliðum bandsins?

„Nei. Ég er líka mjög meðvituð um að ég þarf að passa mig á hvað er mikið í bandinu, ég var einu sinni með of mikið í bandinu, var of „gráðug“, ætlaði að verða rosalega mjó mjög hratt. En Auðun var alltaf að segja mér að það þyrfti þolinmæði. En ég fór of geyst og ég gat ekki borðað neitt, það festist allt í vélindanu og tómt vesen og ég var með bakflæði á nóttunni. Þá þurfti bara að draga aðeins úr,“ segir Gréta.

Gréta er alsæl með magabandið en ítrekar að fólk þurfi …
Gréta er alsæl með magabandið en ítrekar að fólk þurfi að vinna með því og fara eftir reglum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Gréta segist nota vigtina í dag til að passa að hún haldist stöðug, en horfa ekki endilega á töluna sem slíka. „Ég er alveg sátt við að vera 80 kíló, mér er alveg sama hvort hún segir 70 eða 80. En ég hef sleppt henni, og það var hræðilegt þegar ég fór síðan aftur á hana. Ég man ennþá eftir tilfinningunni þegar ég steig á vigtina og hún sýndi 118 kíló, af því að ég var ekki búin að stíga á hana í tvö ár, frá því ég var 88 kíló. Og mér fannst ég alltaf sirka það sama, en samt þurfti ég alltaf stærri föt.“

Trúir þú að þessi aðgerð, eða sambærilega aðgerð, hafi verið eina leiðin?

„Fyrir marga er þetta lykillinn. Mér finnst magabandið vera lykillinn að frelsinu í þessu, þú lifir bara lífinu þínu og gerir þessar breytingar og það gerist hægt að rólega, og án þess að það sé allt að misheppnast sem þú ert að gera. Það er það sem er svo fallegt við þetta,“ segir hún. „Ég þekki konu sem er með band. Hún sagði við mig að þetta væri svolítið eins og að þurfa gleraugu og vera að fara í próf. Og þú getur ekki lesið bókina af því að þig vantar gleraugu. Svo færðu gleraugun og ef þú ætlar að fara beint í prófið án þess að lesa bókina, þá gerist ekkert. Þá ertu alveg jafn illa staddur. Ekkert af þessu virkar eitt og sér. Bandið virkar ekkert eitt og sér. Ég hef heyrt að fólki finnist þetta vera að kaupa sér lausn á vandamálinu og vinnan sem fylgir þyngdartapi sé þar af leiðandi ekki unnin. Ég hef unnið með bandinu og það fór mikil vinna og þolinmæði í það. Ég er ekki til í að leyfa fólki að taka þann árangur af mér fyrir það eitt að nota til þess hjálpartækið sem magabandið er.“

Ítarlegra viðtal er að finna í umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um skurðaðgerðir sem gerðar eru hér á landi vegna offitu.

Gréta segir að það hafi alltaf verið mikið vesen að …
Gréta segir að það hafi alltaf verið mikið vesen að hafa sig til þegar hún var að fara eitthvað fínt.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert