Fékk óvænt atvinnutilboð frá Sigur Rós

Valgeir átti ekki von á því að fá atvinnutilboð frá …
Valgeir átti ekki von á því að fá atvinnutilboð frá Sigur Rós en ferðast nú með sveitinni um heiminn. ljósmynd/Ant Barret/Resolve Films

„Þetta er alveg þvílík reynsla,“ segir Valgeir Skorri Vernharðsson, trommuleikari og einn stofnenda hljómsveitarinnar Rythmatik, en honum bauðst nýverið að starfa sem trommutæknir hjá Sigur Rós á tónleikaferðalagi sveitarinnar um heiminn. Hefur hann því gengið til liðs við starfslið eða „crew“ sveitarinnar, og verður á flakki með þeim næstu mánuði.

Valgeir er 22 ára gamall og kemur frá Suðureyri. Hann segir það hafa komið sér verulega á óvart þegar hann fékk boð um starfið, en það var samstarfsfélagi hans sem benti á hann. Valgeir segist vera honum gríðarlega þakklátur, enda sé um stórt tækifæri að ræða. „Maður fær trú á að maður sé að gera eitthvað af viti,“ segir hann, hógværðin upp máluð.

Ber ábyrgð á trommusettinu og er „takki“ trommuleikarans

Í starfinu felst að sjá um trommusettið, koma því upp og bera ábyrgð á því að það komist á milli staða óskaðað. Þá snýst það um almennt viðhald settsins, en sem dæmi þarf að skinna það upp á nýtt ef trommur verða slakar. Þá þarf trommutæknir að vera tilbúinn með alla varahluti, til dæmis auka diska og trommukjuða, og geta stokkið til ef eitthvað fer úrskeiðis. „Það getur margt gerst þegar maður er á flakki með svona mikið af græjum. Þegar þetta er af þessari stærðargráðu er nauðsynlegt að vera með mann í þessu,“ útskýrir Valgeir.

„Svo þurfa að myndast tengsl á milli mín og trommuleikarans,“ bætir hann við, en trommuleikari Sigur Rósar er Orri Páll Dýrason. „Á tónleikum sit ég fyrir aftan settið og fylgist með allan tímann. Ég reyni að sjá hvort Orra vanti eitthvað eða hvort það sé eitthvað að angra hann. Ég er með fókus á honum því hann er minn maður sem ég passa upp á. Ég er í raun takkinn hans.“

Valgeir segist þurfa að lesa bakið á Orra og sjá hvort eitthvað virðist vera að. „Það tekur smá tíma að mynda tengsl en hann er alveg frábær og hefur verið það frá byrjun,“ segir hann.

Valgeir segir hverja tónleika vera mikla upplifun.
Valgeir segir hverja tónleika vera mikla upplifun. ljósmynd/Ant Barret/Resolve Films

Hjólin fóru að snúast eftir sigur í Músíktilraunum

Valgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að tónlist og hefur verið í hinum ýmsu hljómsveitum síðan hann var á fermingaraldri. Hjólin fóru þó að snúast eftir að hann sigraði Músíktilraunir árið 2015 með hljómsveit sinni Rythmatik. Hljómsveitina stofnaði hann ásamt bróður sínum Hrafnkeli Huga Vernharðssyni en aðrir meðlimir sveitarinnar eru Pétur Óli Þorvaldsson og Árni Freyr Jónsson.

Eftir sigurinn fluttust liðsmenn sveitarinnar til Reykjavíkur, enda varð fljótlega mikið að gera hjá þeim í því að koma fram, og taka upp fyrstu breiðskífuna sína. Eftir flutningana í bæinn fór Valgeir þó einnig að vinna fyrir hljóðkerfa- og ljósaleiguna Exton. Þar kynntist hann Silla Geirdal, sem á „backline“ hljóðfæraleiguna sem rekin er í gegnum Exton. Segja má að Silli sé algjört tæknigúrú, og hefur hann starfað með Sigur Rós í um 13 ár. Hefur hann meðal annars sinnt starfi trommutæknis fyrir hljómsveitina, en er nú í pásu frá því. Silli var sá sem benti hljómsveitinni á Valgeir.

Atvinnutilboðið kom verulega á óvart

„Ég veit ekki alveg af hverju hann hafði samband við mig,“ segir Valgeir og hlær. „Við þekkjumst í gegnum vinnu en þetta er ekki beint starf sem er sótt um. Þetta snýst um orðspor og það virðist vera þannig að fólk þurfi að þekkja til og fá einhvern sem bandið treystir sem mælir með sér.“

Segir hann atvinnutilboðið því hafa komið verulega á óvart. Hann hafi reynt að spila sig yfirvegaðan þrátt fyrir að vera að springa úr spennu. „Maður reyndi að láta eins og maður þyrfti að kíkja í dagatalið og sjá hvort það væri eitthvað framundan en það var auðvitað ekkert framundan og maður var alveg hoppandi kátur með þetta,“ segir hann og hlær. Auk Valgeirs eru samstarfsfélagar hans hjá Exton, Ingvar Jónsson og Garðar Eiðsson, einnig með á tónleikaferðalaginu. „Ég er í góðum félagsskap,“ segir Valgeir.

Valgeir stillir upp trommusettinu og tekur þá niður eftir hverja …
Valgeir stillir upp trommusettinu og tekur þá niður eftir hverja tónleika, og sér um almennt viðhald þess. Þá starfar hann náið með trommuleikara sveitarinnar til að passa upp á að allt sé eins og það á að vera. ljósmynd/Ant Barret/Resolve Films

Átti ekki von á því að vinna með Sigur Rós

„Ég hafði séð Sigur Rós spila einu sinni þegar ég var tólf ára. Þá komu þeir til Ísafjarðar sem hluti af Heima-túrnum. Þá átti ég nú ekki von á því að einn daginn myndi ég vinna með þeim,“ segir hann. „Það má segja að þetta sé heimsreisa á launum. Ég hélt að ég myndi aldrei fá borgað fyrir að stilla trommur.“

Í starfi sínu fyrir Exton hefur Valgeir unnið við ýmsa stóra tónleika, og tekið þátt í því að setja upp og taka niður. Umhverfið er þó ekki nýtt fyrir honum þar sem faðir hans á litla hljóðkerfaleigu fyrir vestan. „Ég er búinn að vera í þessu umhverfi frá því ég var krakki,“ segir hann og bætir við að þar sem hann er sjálfur trommari hefði það legið beint við að hann sinnti þessu starfi. „En ég hefði líklega aldrei fengið þetta tækifæri ef ég hefði ekki byrjað að vinna hjá Exton.“

Bróðirinn hefði sparkað honum hefði hann neitað

Valgeir segist þó hafa þurft að heyra í öðrum meðlimum Rythmatik og vita hvort það væri í lagi að hann myndi hverfa frá í nokkra mánuði. Reyndust þeir afar spenntir og stoltir af sínum manni, og hvöttu hann eindregið til að grípa tækifærið. „Hrafnkell bróðir sagði að hann myndi sparka mér ef ég færi ekki,“ segir hann. „Maður finnur mjög mikið fyrir stuðningi og stolti frá fjölskyldunni.“

Í stað Valgeirs kemur því Benjamín Bent Árnason inn í Rythmatik sem staðgengill hans næstu mánuði, en þeir eru góðir vinir að vestan. „Við höfum fylgst að í gegnum tíðina og verið einu trommararnir á okkar aldri á þessu svæði. Það er frábært að fá hann inn á meðan,“ segir Valgeir. Hann kveðst þó hugsanlega munu stökkva inn á milli leggja og spila með hljómsveitinni.

Valgeir segist ekki hafa áttað sig á því mikla umfangi …
Valgeir segist ekki hafa áttað sig á því mikla umfangi sem fylgir stórri hljómsveit eins og Sigur Rós. ljósmynd/Ant Barret/Resolve Films

Flakkar um allan heim og endar í Hörpu í desember

Valgeir hefur nú verið í tvær vikur með Sigur Rós á ferð um Bandaríkin, en tónleikaferðalagið er tekið í ákveðnum leggjum. Í þessum legg verður farið um Bandaríkin og Kanada og svo kemur Valgeir heim í nokkrar vikur. Eftir það fer hann til Ástralíu og Asíu með sveitinni og eftir það heldur flakkið áfram út árið. „Þetta endar svo allt í Hörpu í desember,“ segir Valgeir, en þar mun Sigur Rós halda ferna tónleika.

Valgeir segist ekki hafa áttað sig á því mikla umfangi sem fylgir stórri hljómsveit eins og Sigur Rós á tónleikum. Stór hópur fólks komi að hverjum einustu tónleikum. Þá hafi hann heldur ekki fyllilega gert sér grein fyrir þeim gríðarlegu vinsældum sem Sigur Rós hefur áunnið sér um allan heim. „Bönd eru oft stór á ákveðnum svæðum en þeir virðast eiga aðdáendahóp hvar sem er,“ segir hann.

Finnur ekkert nema hlýju

Þá bætir hann við að reynsla af þessu tagi sé ómetanleg, og góður hópur sem hann starfar nú með geri hana enn betri. „Maður er með frábæru „crew-i“. Þetta eru allt reynsluboltar. Margir hafa verið í þessu fjöldan allan af árum og hafa gert ótrúlega hluti með allskonar fólki,“ segir hann. „Maður áttar sig ekki á því hvað þetta er lítill heimur. Allir þekkja alla. Stundum þegar þeir eru að tala um fólk sem þeir hafa unnið með er maður bara: „já einmitt, vannstu bara með honum?!““

Þá segist hann frá upphafi hafa upplifað sig afar velkominn. „Hópurinn hefur talað um að þeir hafi verið á öðrum túrum en ekki fundið sömu tilfinningu. Mannskapur er svo misjafnt en þetta er einhvern veginn bara svo rosalega gott „crew.“ Þeir koma alltaf aftur sem virðist ekki vera sjálfgefið.“

Tónleikaferðalagið endar í Hörpu í desember þar sem Sigur Rós …
Tónleikaferðalagið endar í Hörpu í desember þar sem Sigur Rós heldur ferna tónleika. ljósmynd/Ant Barret/Resolve Films

Var mjög stressaður til að byrja með

Valgeir segir samband sitt við hljómsveitarmeðlimina einnig vera gott, en hann hittir þá fyrir og eftir hverja tónleika og starfar náið með þeim. „Það þarf náttúrulega að myndast gott samband og traust því þeir verða að geta talað við mann ef það er eitthvað að eða ef það er allt gott. Maður finnur ekkert nema hlýju. Þeir eru mjög hlýir og góðir.“

Hann játar þó að hafa orðið mjög stressaður fyrir fyrstu tónleikana í nýja starfinu, en nú sé hann allur að róast. „Fyrstu giggin var maður á nálum allan tímann en ég myndi segja að stress fyrir tónleika sé gott upp að vissu marki. Þá er manni ekki sama um það sem maður er að gera,“ segir hann. „En þetta verður þægilegra og þægilegra með hverjum tónleikunum og manni líður eins og þetta sé allt í lagi. Maður veit hvað getur komið upp á og er undirbúinn.“

Endalaust þakklátur fyrir tækifærið

Segja má að Valgeir sé úr mikilli tónlistarfjölskyldu, en af fjórum systkinum hafa þrjú sigrað Músíktilraunir. Systir hans, Katla Vigdís Vernharðsdóttir, fór með sigur úr býtum þetta árið með hljómsveitinni Between Mountains, þar sem hún semur og spilar ásamt vinkonu sinni Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur. Yngsti bróðirinn er sá eini sem hefur ekki sigrað keppnina, en það er nú kannski ekki von þar sem hann er aðeins 6 ára.

Valgeir segist finna fyrir miklum stuðningi frá fjölskyldunni. Þá segist hann gríðarlega þakklátur Silla Geirdal sem mælti með honum í stafið. „Ég er endalaust þakklátur honum fyrir að gefa mér þetta tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert