Hreiðar fær ekki afrit af gögnum

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms og hafnaði kröfu Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, um að fá afhent gögn sem saksóknari aflaði við rannsókn sakamáls á hendur honum. Um er að ræða gögn sem ekki hafa verið lögð fram af ákæruvaldinu. Þá var kröfu Hreiðars um aðstöðu til að skoða gögnin vísað frá dómi þar sem lagaheimild skorti til að kæra úrskurð héraðsdóms.

Krafan er hluti af meintu umboðssvika- og innherjasvikamáli sem Hreiðar hefur verið ákærður í og tengist einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf. Samkvæmt ákæru málsins fékk félagið 574 milljón króna lán frá Kaupþingi til kaupa á 812 þúsund hlutum í bankanum í ágúst 2008. 246 milljónir fóru til kaupanna en um 324 milljónir stóðu eftir til frjálsrar ráðstöfunar, en Hreiðar var eigandi félagsins og stýrði því.

Fór Hreiðar fram á að sér yrði „veitt aðstaða til að kynna sér öll gögn sem aflað var af lögreglu við rannsókn málsins og ekki hafa verið lögð fram í málinu.“ Til vara var farið fram á að verjanda sínum yrði afhent afrit af eftirfarandi gögnum, en tekið er út úr dómnum hvaða félag sé um að ræða, þó leiða megi líkur að því að um sé að ræða Hreiðar Má Sigurðsson ehf.

  1. Tölvupóstum „sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðasambandið „X ehf.“ kemur fyrir og ekki voru lagðir fram með ákæru.“
  2. Tölvupóstum „sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðin „X“ koma fyrir og ekki voru lagðir fram með ákæru.“
  3. Tölvupóstsamskiptum „starfsmanna A við ytri endurskoðendur bankans, B, sem varða lánveitingar til starfsmanna og stjórnenda A frá árunum 2005, 2006, 2007 og 2008.

Er beiðnin í lið 1 og 2 afmörkuð við tímabilið 1. júní til 31. október 2008.

Í dómi Hæstaréttar segir að í lögum um hvaða úrskurði héraðsdóms sé hægt að kæra til Hæstaréttar sé ekki tilgreint að hægt sé að kæra úrskurði þar sem ákærða er synjað um aðstöðu til að kynna sér gögn máls. Því bresti heimild til að kæra það ágreiningsatriði og vísaði Hæstiréttur þeim hluta kærunnar frá dómi.

Varðandi að fá afhent gögn segir í dómnum að Hreiðari hafi ekki tekist að benda á að neitt þeirra gagna sem hann vísi til í kærunni geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Af þeim sökum er niðurstaða héraðsdóms staðfest og kröfunni hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert