Dúx með 9,75 í meðaleinkunn

Daði Rúnar Jónsson, fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar, var heiðraður með blómvendi.
Daði Rúnar Jónsson, fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar, var heiðraður með blómvendi. Ljósmynd/Keilir

Keilir útskrifaði 115 nemendur við hátíðlega athöfn á Ásbrú í dag. Við athöfnina brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu, auk nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Thompson Rivers University og Keilis.

Í ræðu sinni velti Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis upp mikilvægi þess að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, ásamt virðingu fyrir orðum, náttúrunni, samferðafólki og sjálfum sér. Hann hvatti útskriftarnemendur til að stökkva út fyrir þægindaramma sína og vera óhrædd við að gera mistök, þar sem þau eru liður í lærdómsferli þeirra. Þá hvatti hann nemendur til að halda lífi í gleðinni.

Flugakademía Keilis útskrifaði 18 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 47 atvinnuflugmenn útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Dúx var Sigurbergur Ingi Jóhannsson með 9,44 í meðaleinkunn. Sigurbergur fékk gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Pontus Willby. 

47 nemendur útskrifuðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 33 einkaþjálfarar og 14 styrktarþjálfarar. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Aldís Hilmarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,75 í meðaleinkunn og Þorgrímur Þórarinsson fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,01 í meðaleinkunn.

Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu 18 nemendur úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Sharman Learie, umsjónarmaður TRU Adventure Studies, flutti ávarp og Erik Stevensson hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8,95 í meðaleinkunn.

Háskólabrú Keilis brautskráði í 27 nemendur úr tveimur deildum, þar af átta úr fjarnámi. Brautskráðir voru nemendur af Félagsvísinda- og lagadeild og Viðskipta- og hagfræðideild. Samtals hafa 1.523 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og var Daði Rúnar Jónsson, fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar, heiðraður með blómvendi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Eiður Ágúst Kristjánsson með 8,96 í meðaleinkunn. Fékk hann bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Erna Valdís Jónsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert