Eitrað fyrir köttum í Vesturbænum?

Kattaeigendur í Vesturbænum eru óttaslegnir eftir að athugull íbúi fann …
Kattaeigendur í Vesturbænum eru óttaslegnir eftir að athugull íbúi fann bláleita fiskbita í hverfinu. mbl.is/Golli

„Ég fann þessa fiskbita við ruslatunnu við undirgöng undir húsinu þar sem ég bý. Þetta var inni á svona hálfgerðum kattastíg,“ segir Björk Emilsdóttir, árvökull íbúi við Bræðraborgarstíg, sem í síðustu viku rak augun í nokkra fiskbita er virtust vera mengaðir með frostlegi. Miðað við hvernig þeim var komið fyrir, á stað sem fjöldi katta sækir í, má ætla að tilgangurinn hafi verið að eitra fyrir köttum.

Slík mál hafa reglulega komið upp hér á landi. mbl.is greindi til að mynda frá því á síðasta ári að minnsta kosti átta kettir á Suður- og Austurlandi hefðu drepist vegna eitrunar. Í nokkrum málanna þótti sannað að köttunum hefði verið byrlað eitur með því gefa þeim mat sem búið var að sprauta með frostlegi. Þá kærði Matvælastofnun mál til lögreglu síðastliðið haust, sem snéri að meintri eitrun fyrir ketti á Selfossi. Grunur lék á því að eitrað hefði verið fyrir kettinum með því að blanda frostlegi við fæðu sem hann komst í.

Þegar Björk gekk fram á fiskbitana í Vesturbænum áttaði hún sig ekki strax á því hvað var þarna á ferðinni. Henni brá hins vegar mikið þegar henni varð það ljóst. „Ég potaði í þetta og sá að þetta var fiskur. Ég tók bitana upp og henti þeim. Svo labbaði ég um hverfið til að kanna hvort ég fyndi fleiri bita, en sá sem betur fer enga. Ég á sjálf kött sem er innköttur og ég er fegin að hann er ekki að þvælast þarna,“ segir Björk. Hún er mikill kattavinur og gefur sér oft tíma til að spjalla við og klappa köttunum í hverfinu, en líklega er það ástæðan fyrir því að hún tók eftir fisknum. „Ég var að tala við ketti í hverfinu og var í svona kattagír. Ég held að maður þurfi nefnilega vera í þannig gír til að taka eftir svona.“

Bláleitir fiskbitar fundust við Bræðaborgarstíg. Líklega var fiskurinn mengaður með …
Bláleitir fiskbitar fundust við Bræðaborgarstíg. Líklega var fiskurinn mengaður með frostlegi. Björk Emilsdóttir

Björk birti mynd af fiskbitunum inni í Facebook-hóp fyrir íbúa Vesturbæjar til að vara kattaeigendur við þessari hættu í hverfinu. Í kjölfarið hafði kona samband við hana sem missti nýlega tvo ketti. Annar týndist og hinn kom sárþjáður heim. „Hún vissi auðvitað ekki hvað hafði gerst en þegar hún sá færsluna mína þá fór hana að gruna að það gæti hafa verið eitrað fyrir honum.“

Kötturinn fékk nýrnabilun og dó

Inga Heiða Hjörleifsdóttir, íbúi í Vesturbænum, fékk áfall þegar hún sá færsluna um fiskinn, en kötturinn hennar veiktist fyrir skömmu og dó. Hann var aðeins 7 ára. „Það er auðvitað ekki hægt að segja til um hvort að það hafi verið eitrað fyrir honum, en hann dó eftir að hafa fengið svona einkenni, eins og fylgja  nýrna- og lifrabilun, og ældi mikið í aðdraganda þess. Engir sýklalyfjakúrar virkuðu,“ segir Inga Heiða í samtali við mbl.is, en kötturinn hennar var í tveggja vikna meðferð hjá Dýralæknastofu Dagfinns áður en hann dó.

„Þau geta aldrei verið viss um hvort þetta er eitrun eða eitthvað annað, því allt kerfið í þeim; magi, lifur og nýru, er samofið, en hún nefndi að það væri möguleiki,“ segir hún vísar til orða læknisins sem meðhöndlaði köttinn hennar.

Inga Heiða hafði ekki heyrt um slík tilfelli og hugsaði því ekki meira út þennan möguleika fyrr en hún sá færsluna í Facebook-hóp Vesturbæjar. Nú læðist að henni sá grunur að eitrað hafi verið fyrir kettinum hennar.

Deyja kvalarfullum dauðdaga

Lísa Bjarnadóttir, dýralæknir á dýraspítalanum í Víðidal, segir það mjög alvarlegt mál ef einhver hefur vísvitandi skilið eftir fisk mengaðan með frostlegi á víðavangi, í þeim tilgangi að skaða ketti. En því miður komi slík mál reglulega upp.

„Frostlögur veldur miklum eitrunaráhrifum hjá köttum og líka hundum auðvitað. Efnið í honum ræðst á nýrun og eyðileggur þau. Það verður bráð nýrnabilun og dýrin deyja mjög kvalarfullum dauðdaga ef ekki er gripið inn í strax.“

Ef dýri, sem grunur leikur á að hafi innbyrt frostlög, er strax komið til dýralæknis er hægt að reyna hreinsun með innskolunarvökva og losa þannig eitrið út, að sögn Lísu. „Því miður uppgötvast svona yfirleitt of seint. Við fengum eitt svona tilfelli til okkar um daginn, en það var því miður of seint.“

Aðspurð segir Lísa það hins vegar oft erfitt að skera úr um hvort dýr hafi veikst eða drepist vegna eitrunar. Leikur hins vegar minnsti grunur á eitrun er dýrið meðhöndlað þannig.

„Við skulum svo alveg hafa það á hreinu á það er mjög ábyrgðarlaust og alveg hræðilegt ef einhver er að gera svona vísvitandi og af ásetningi. Það er sætur keimur og lykt af frostleginum og þess vegna sækja dýrin í hann“ segir Lísa sem bendir á að frostlögur sé yfirleitt blár eða rauður á litinn og geti því einnig vakið athygli barna og þótt spennandi. Þrátt fyrir að vera ekki barnalæknir getur hún rétt ímyndað sér hvaða áhrif það hafi á börn að innbyrða frostlög.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert