Öll í haldi vegna gruns um aðild að manndrápi

Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal.
Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sexmenningarnir sem eru í gæsluvarðhaldi vegna líkamsárásar í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld sem leiddi til þess að fórnarlambið lést, eru allir í haldi á grundvelli sömu lagagreinar almennra hegningarlaga. Í greininni, þeirri 211., segir að „hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“

Sexmenningarnir, fimm karlar og ein kona, voru leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær þar sem lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms munu karlarnir fimm sæta varðhaldi í tvær vikur eða til 23. júní, en konan viku skemur eða til 16. júní.

„Þarna var framið manndráp og þetta fólk er undir grun um að hafa með misjafnri aðkomu framið eða átt hlutdeild í því,“ segir Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlög­reglu­stjóri á ákæru­sviði. Því sé farið fram á varðhaldið yfir öllum á grundvelli sömu lagagreinar. 

Jón segir ekki tímabært að svara því hvort að skýr mynd sé komin á atburðarásina og þátttöku einstakra sakborninga í henni. Hann segir lögregluna ætla sér að vinna vel og fljótt að rannsókn málsins. 

Sakborningar hafa þrjá sólarhringa frá því að úrskurður héraðsdóms er kveðinn upp til að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. 

Arnar Jónsson Aspar og Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir eignuðust dóttur þann …
Arnar Jónsson Aspar og Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir eignuðust dóttur þann 27. maí síðastliðinn. Hún var sofandi er árásin átti sér stað. Ljósmynd úr einkasafni birt með leyfi fjölskyldunnar

Atburðarásin

Maðurinn sem lést í árásinni hét Arnar Jónsson Aspar. Hann var fæddur árið 1978 og lætur eftir sig tvær dætur og unnustu.

Neyðarlínu barst fyrsta tilkynning um árásina kl. 18.24 á miðvikudagskvöld. Fleiri en ein tilkynning barst enda voru nokkur vitni að árásinni, m.a. móðir Arnars, unnusta hans og afi hennar. 

Atburðarásin, eins og hún hefur birst í fjölmiðlum samkvæmt frásögnum vitna, er sú að Arnar og unnusta hans hafi verið heimavið að Æsustöðum í Mosfellsdal er bankað var upp á. Afi unnustunnar var gestkomandi á heimilinu þetta kvöld. Þá var ung dóttir parsins, fædd 27. maí síðastliðinn, í húsinu. 

Unnusta Arnars fór til dyra og var þá spurt eftir honum. Fyrir utan var hópur fólks. Arnar yfirgaf húsið og hófust átökin á bílaplani fyrir utan. Ráðist var á Arnar og í frétt Vísis segir að hann hafi gripið í járnskaft til að verja sig. Einn árásarmaðurinn hafi hins vegar náð því af honum og barið hann með því. Annar hafi svo tekið hann kverkataki og samkvæmt lýsingum vitna var einnig ekið yfir fætur hans á amerískum pallbíl. 

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun segir að einn árásarmannanna hafi sjálfur hringt á Neyðarlínuna. Sá er sagður æskuvinur Arnars. Hann hafi ennfremur reynt endurlífgunartilraunir á vettvangi.

Nokkur vitni urðu að árásinni. Unnusta Arnars þurfti m.a. að horfa upp á mennina ganga í skrokk á manni sínum. Þá horfði afi hennar, sem var gestkomandi hjá parinu þetta kvöld, á aðfarirnar og fékk vægt hjartaáfall í kjölfarið. 

Hluti árásarmannanna ók á brott áður en lögregla og sjúkralið kom á vettvang. Þrír voru handteknir á Vesturlandsvegi skömmu síðar og hald lagt á bíl þeirra. Þrír voru handteknir á vettvangi og hald sömuleiðis lagt á pallbílinn.

Áfram héldu endurlífgunartilraunir er viðbragðsaðilar komu á vettvang. Arnar var svo fluttur á Landspítalann þar sem hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar. 

Í frétt Fréttablaðsins kom fram að tilefni árásarinnar hafi verið óuppgerð fíkniefnaskuld. Flestir þeirra sem voru handteknir hafa hlotið refsidóma. Tveir fyrir skotárás í Breiðholti í ágúst í fyrra. Þeir hlutu dóm fyrr á þessu ári en höfðu ekki hafið afplánun.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndina.

Friðsældin í Mosfellsdal er einstök. Íbúar eru nú slegnir vegna …
Friðsældin í Mosfellsdal er einstök. Íbúar eru nú slegnir vegna hins hroðalega manndráps. Ljósmynd/Mats Wibe Lund/mats.is

Friðsæld Dalsins rofin

Mosfellsdalur er náttúruparadís í dreifbýli, rétt við mörk höfuðborgarsvæðisins. Andinn í samfélaginu þar er líkur því sem gengur og gerist í smærri byggðarlögum úti á landi. Íbúarnir standa þétt saman og flestir þekkjast.  

Dalbúar sem mbl.is hefur rætt við segjast því að vonum slegnir vegna málsins. „Það er mikill óhugur í fólki þegar svona gerist nánast í bakgarðinum um hábjartan dag og fyrir allra augum,“ segir einn íbúi um líðan sína. „Þetta hvílir þungt á fólki í þessum friðsæla dal. Hér þekkjast náttúrlega allir.“

Annar Dalbúi segist því fegnastur að börn hans hafi ekki verið úti að leika sér eins og þau gera gjarnan á þeim tíma dags sem árásin var gerð. „Það er slá­andi að heyra að svona hlut­ir ger­ist í land­inu okk­ar, hvað þá í næsta ná­grenni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert