„Minn umbjóðandi réð hinum látna ekki bana“

Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal.
Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur

Jón Trausti Lúthersson, einn sexmenninganna sem handteknir voru í tengslum við alvarlega líkamsárás í Mosfellsdal á miðvikudag, sem leiddi 39 ára karlmann til dauða, neitar því að hafa ráðið manninum bana. Þetta segir lögmaður Jóns Trausta, Sveinn Andri Sveinsson, í samtali við mbl.is. Hann neitar hins vegar ekki aðkomu að málinu. „Hann var á þessum vettvangi, en það breytir því ekki að minn umbjóðandi réð hinum látna ekki bana,“ segir Sveinn.

Jón Trausti var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. júní næstkomandi á grundvelli 211. greinar hegningarlaga þar sem segir að: „hver, sem svipt­ir ann­an mann lífi, skal sæta fang­elsi, ekki skem­ur en 5 ár, eða ævi­langt.“ Karlmaður sem ráðist var á var úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús. Hann var fæddur árið 1978.

Sveinn á eftir að fara betur yfir það með skjólstæðingi sínum hvort úrskurður um gæsluvarðhald verði kærður. „Við ætlum nýta okkur frestinn til að kæra úrskurðinn og höfum því ekki tekið ákvörðun um hvort við gerum það,“ segir Sveinn, en fresturinn er þrír sólarhringar frá því úrskurður er kveðinn upp. „Ég reikna nú ekki með því. Þetta er alvarlegt mál sem snýr að andláti manns og rannsókn málsins er á algjöru frumstigi. Það tvennt leiðir til þess að það eru alltaf 99,9 prósent líkur er á því að dómstóll samþykki gæsluvarðhald. Lögreglan á eftir að komast til botns í öllum málsatvikum.“

Sveinn Andri býst frekar við því að umbjóðandi sinn uni …
Sveinn Andri býst frekar við því að umbjóðandi sinn uni gæsluvarðhaldsúrskurði. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Sveinn reiknar frekar með því að sinn skjólstæðingur komi til með að una úrskurðinum. „Hann var á svæðinu, um það er ekki deilt. Hann hafði afskipti af hinum látna, um það er ekki deilt heldur. Það mæla því öll rök með því að menn þurfi að una gæsluvarðhaldi. Eftir því sem fram vindur kemur það allt til endurskoðunar. Eftir því sem lögreglunni tekst að rannsaka málið betur.“

Sveinn bendir jafnframt á að lögreglan eigi eftir að afla sér fullburða krufningar til að hægt sé að kveða algjörlega upp um dánarorsökina. „Það er gríðarlega mikilvægur hlekkur í að átta sig á og ná utan um atburðarrásina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert