Vilja áfram birta myndir af heimilum

Myndbirting sem þarfnast sérstaks upplýsts samþykkis samkvæmt ákvörðun Persónuverndar.
Myndbirting sem þarfnast sérstaks upplýsts samþykkis samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Mynd/Já.is

Þrátt fyrir ákvörðun Persónuverndar, um að Já.is sé óheimilt að birta myndir af heimilum einstaklinga við hlið nafns þeirra þegar þeim er flett upp á síðunni, er heimilt að birta myndir af heimilum á kortavefjum. Því er enn hægt að fletta einstaklingum upp á Já.is, finna heimilisfang þeirra og fletta síðan heimilisfanginu upp á kortavef Já.is eða Google Maps sem dæmi.

Ákvörðunin var birt fyrr í vikunni, en þar kom fram að birtingin á Já.is samræmdist ekki lögum um persónuvernd og fjarskiptalögum. Er nú unnið að því hjá Já.is að fjarlægja myndirnar við hlið nafns einstaklinga, en fyrirtækið hefur frest til 19. júní til þess. Markmið fyrirtækisins er þó að afla upplýsts samþykkis notenda og geta þá birt myndirnar aftur með sama hætti síðar að sögn Margrétar Gunnlaugsdóttur, vöru- og viðskiptaþróunarstjóra Já.is.

„Við hlítum þessum úrskurði og erum að vinna í því að taka þetta út. Við töldum okkur vera með nægilega upplýst samþykki frá þessum einstaklingum til að hafa þetta í þessu birtingarformi en ætlum núna að leita leiða til að afla þess samþykkis,“ segir Margrét.

Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptastjóri hjá Já, ásamt Já-bílnum sem …
Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptastjóri hjá Já, ásamt Já-bílnum sem ekið verður um landið í sumar. ljósmynd/Já.is

Upplýsingar séu ópersónugreinanlegar

Kortavefur Já.is hefur verið uppi frá því árið 2013 en birtingarformið sem um ræðir hefur verið notað í um ár. Þegar kortavefurinn var settur upp leitaði fyrirtækið samþykkis Persónuverndar, sem birti ákvörðun um málið það sama ár. Sneri sú ákvörðun að myndum teknum úr götuhæð (e. street view) og var niðurstaðan sú að Já.is væri heimilt að birta slíkar myndir, en þær yrðu að vera ópersónugreinanlegar. Því þyrfti fyrirtækið að afmá öll andlit og skráningarnúmer ökutækja af myndunum áður en þær væru birtar.

Ákvörðunin sem nú var birt snýr hins vegar aðeins að birtingarformi myndanna á Já.is. Áfram er heimilt að sýna þær á kortavefnum án persónuupplýsinga, en birtingin af mynd heimila við hlið nafna einstaklinga á Já.is þótti brjóta í bága við lög.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við mbl.is að Já.is hafi farið umfram heimila birtingu án þess að afla samþykkis. Í fjarskiptalögum megi finna skýrt ákvæði um að einungis megi birta nauðsynlegar upplýsingar í símaskrá, en myndir af heimilum falli ekki þar undir. Þar sem fyrirtækið hafi ekki aflað samþykkis auk þess sem nægileg fræðsla hafi ekki verið veitt áður en þessum birtingarhætti var komið á hafi lögin verið brotin.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Nær ekki yfir iðju Google Maps

En hvað með myndir teknar úr götuhæð (e. street view) og myndir sem birtast á öðrum kortavefjum eins og Google Maps? „Á kortavefjum er heimilt að birta slíkar myndir en þær mega ekki vera persónugreinanlegar. Kortavefur Já.is má ekki vera með persónugreinanlegar upplýsingar og það sama á við um kortavef Google Maps. Hvað varðar flesta aðra starfsemi Google og Facebook til dæmis er um að ræða amerísk fyrirtæki sem íslensku persónuverndarlögin ná ekki yfir,“ segir Helga en bendir á nýja evrópska persónuverndarlöggjöf sem kemur til framkvæmda í maí á næsta ári. Mun hún ná betur til athæfis stórfyrirtækja utan EES þegar þau fylgjast með evrópskum ríkisborgurum eða bjóða fram vöru eða þjónustu óháð því hvort gjald komi fyrir.

Þrátt fyrir þetta bætir Helga við að Persónuvernd hafi borist tilkynning í júní 2013 vegna Google-götusýnar (e. street view) þar sem fyrirhuguð starfsemi í tengslum við kortavef Google hérlendis var kynnt. Í framhaldi af tilkynningunni óskaði Persónuvernd eftir frekari upplýsingum frá lögmanni Google hér á landi um hvort frekari upplýsingum en ljósmyndum af húsum yrði safnað, til dæmis wifi-upplýsingum. Fram kom hjá lögmanninum að einu upplýsingar sem safnað yrði væru ljósmyndir af húsum auk landfræðilegra upplýsinga í því skyni að útbúa þrívíddarmyndir og kortagerðargögn.

Fyrirtækinu var tilkynnt um að ef Persónuvernd yrði vör við eða bærust upplýsingar um að Google safni frekari upplýsingum en nefndar höfðu verið muni Persónuvernd rannsaka það nánar og eftir atvikum úrskurða í slíkum málum. Þess má geta að persónuverndarstofnanir í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum hafa sektað vegna ólögmætrar söfnunar fyrirtækisins á wifi-upplýsingum.

Birtingaform upplýsinga sem er í lagi samkvæmt ákvörðun Persónuverndar.
Birtingaform upplýsinga sem er í lagi samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Mynd/Já.is

Afmá myndir sé þess óskað

Þá bendir Helga á að víða í Evrópu, t.d. í Þýskalandi, séu kortavefir gloppóttir þar sem eigendur húsa kæra sig ekki um myndbirtingu og fara fram á að myndirnar séu fjarlægðar. Þar hefur réttur til friðhelgi einkalífs verið metinn sterkari en réttur almennings til upplýsinga um viðkomandi hús.

Aðspurð segir Margrét að Já.is taki slíkar beiðnir til greina og hægt sé að afmá myndir af húsum af kortavefjum sé þess óskað. Ekki hafi þó borist margar beiðnir þess efnis.

Loks bætir hún við að í sumar muni Já.is endurnýja kortavefinn. Því verði keyrt um allt landið og myndir uppfærðar. „Við erum ekki af baki dottin,“ segir hún og hlær. „Þetta er þjónusta sem notendur vilja og nota og við viljum veita góða þjónustu og hafa þetta aðgengilegt og þægilegt fyrir þá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert