Nýleg skemmdarverk við Nesjavelli

Í brekkunni við gatnamót Nesjavallaleiðar og Grafningsvegar má sjá óskemmtileg …
Í brekkunni við gatnamót Nesjavallaleiðar og Grafningsvegar má sjá óskemmtileg skemmdarverk þar sem mosi hefur verið rifinn upp til að skrifa nöfn og setningar. Mynd/Gunnar Birgisson

Undanfarin ár hafa reglulega verið unnin skemmdarverk í hlíðinni sem blasir við þegar komið er niður af Nesjavallaleið inn á Grafning. Þar hefur mosi verið rifinn upp til að mynda nöfn eða setningar, en þar sem mosi er mjög viðkvæmur getur slíkt rask tekið mörg ár og áratugi að jafna sig. Leiðsögumanninum Gunnari Birgissyni var nóg boðið og boðar nú aðgerðir til að laga brekkuna og safna þekkingu til að fólk geti sjálft ráðist í lagfæringar þegar það sér svipuð skemmdarverk.

Ný skemmdarverk bæst við í brekkuna

Gunnar deilir mynd í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar og bendir á að nýlega hafi bæst við skemmdarverkin. Áður hafði meðal annars verið kroppað út „Grétar Þór“, „Ég elska þig“ og „Elli“. Þá hafi í fyrra bæst við risastórt „LIFE“ og nýlega hafi einhver skrifað „Send nudes“.

Í samtali við mbl.is segir Gunnar að hægt og rólega hafi verið að bætast við skemmdarverk í brekkuna og hannlangi að gera eitthvað í þessu. Hann kallar eftir upplýsingum um hvað sé besta aðferðin til að laga þetta og vonast til þess að slíkar leiðbeiningar muni verða til þess að fólk bregðist fljótt við þegar það sjái svona skemmdarverk áður en hjarðhegðun valdi því að fleiri fari að skemma.

„Ef einn fer þá halda aðrir að þetta sé í lagi“

Segir Gunnar að þessi hjarðhegðun sé rík í fólki og sérstaklega ferðamönnum sem þekki ekki jafnvel til umræðunnar um náttúrumál hér á landi og margir Íslendingar. Hann tekur þó fram að það sé alls ekki þannig að aðeins sé um að ræða ferðamenn þegar komi að spjöllum sem þessum. Nefnir hann sem dæmi um hjarðhegðunina að á stöðum þar sem enginn utanvegaakstur hafi verið í langan tíma geti slíkt breyst á mjög skömmum tíma þegar einn ákveði að keyra utanvega. „Ef einn fer þá halda aðrir að þetta sé í lagi,“ segir Gunnar.

„Mér finnst mjög áríðandi að gera eitthvað sem fyrst áður en fólk fer að halda að þetta sé sniðugt,“ segir Gunnar og bætir við að stundum sé sagt að fótspor eins geti reynst innblástur fyrir þúsundir annarra, jafnvel þótt um slæma hluti sé að ræða.

Umræða til að koma í veg fyrir frekari skemmdarverk

Gunnar segir reyndar yfirgengilegt hversu margir sýni náttúru og ásýnd landsins litla virðingu. Nefnir hann sem dæmi að hann hafi nýlega komið að kínverskum ferðamanni sem var að kúka úti af því að hann taldi ekkert að því eða að skilja pappírinn eftir út í móa hér á landi. Slíkt hefði hann séð hjá öðrum. Þá hafi hann komið að erlendum ferðamönnum sem voru að spreyja gamalt eyðibýli sem hafði fengið að standa óraskað í lengri tíma. Þegar hann spurði viðkomandi af hverju hann væri að þessu var svarið að um list væri að ræða. „Það halda allir að þeir megi allt hér á landi,“ segir Gunnar.

Hann vonast til þess að umræðan um þetta mál veki fólk upp og ýti undir að komið sé í veg fyrir skemmdarverk sem og að læra hvernig bregðast eigi við þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert