„Ég keypti bara strætó“

Vagninn fluttur í land.
Vagninn fluttur í land. Mynd/Halla Ingólfsdóttir

Fyrsti strætisvagn í sögu Grímseyjar kom til eyjarinnar fyrir hálfum mánuði. Kaupandi vagnsins, Sigurður Bjarnason, segir strætókaupin upprunalega hafa verið grín sem hafi svo orðið að raunveruleika. Vagninn er hugsaður fyrir ferðamenn og er rekinn í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í eyjunni, Höllu Ingólfsdóttur.

Sigurður rekur vélaverkstæði og vinnuvélar og keyrir díselstöð fyrir rafmagnsveitur. Hann er glaður í fasi og er afar hláturmildur. „Veistu það, það þurfa allir að eiga strætó. Ég sagði konunni minni það þegar ég keypti vagninn, það þurfa allir að eiga strætó,“ segir Sigurður.

Í sumar er gert ráð fyrir að um 29 skemmtiferðaskip leggist að bryggju í Grímsey. Daglegt flug er frá Akureyri til eyjarinnar auk þess sem ferjan Sæfari siglir fimm daga vikunnar. Því má búast við mikilli fjölgun ferðamanna. Sigurður segir marga farþeganna vera eldra fólk, veðráttan geti verið erfið og þetta sé ein leið til að sýna fólkinu allt það besta sem Grímsey hafi uppá að bjóða. „Við sáum okkur því leik á borði,“ segir hann.

Sigurður Bjarnason í vagninum.
Sigurður Bjarnason í vagninum. Mynd/Halla Ingólfsdóttir


„Ég keypti bara strætó!“

Sigurður stakk uppá strætókaupunum í gríni við Höllu en henni leist vel á samstarfið. Vélaverkstæði keypti svo almenningsvagninn sem tekur 23 farþega í sæti. „Vagn var auglýstur til sölu og ég keypti bara strætó!“

Þrátt fyrir að að kaupin hafi upprunalega verið grín, sjá þau í dag mikið notagildi í vagninum. „Þetta byrjaði sem brandari, en endaði sem raunveruleiki,“ segir Sigurður. Nú þurfi þau að þróa hugmyndina og markaðsetja vagninn. „Við ætlum bara að sjá hver eftirspurnin er, hvað fólk þarf og vill og látum svo bara sumarið stýra því hvað framhaldið verður,“ segir Halla. 

Ánægðir ferðamenn í vagninum.
Ánægðir ferðamenn í vagninum. Mynd/Halla Ingólfsdóttir


Nóg af áhugasömum bílstjórum

Eins og er keyrir Sigurður bílinn en Halla er með leiðsögn. „Á morgun er ég til dæmis með ferðamannahóp. Sigurður keyrir og ég fræði og skemmti fólkinu á meðan við keyrum,“ segir Halla. Sigurður segir sig ekki vera fastan bílstjóra en nóg sé af áhugasömum bílstjórum. Á eyjunni eru tveir aðrir með réttindi til farþegaflutninga. Halla ætlar sér líka að keyra en þarf fyrst að klára meiraprófið.

Til að reka strætóinn er tekið gjald, en Halla segir tilgang vagnsins ekki vera að græða. „Þetta er hugsað til að auka ánægju og upplifun ferðamanna. Gjaldið er til að hafa eitthvað fyrir kostnaði og til að hafa einhvern á launum," segir hún. 

Halla Ingólfsdóttir með vagninum.
Halla Ingólfsdóttir með vagninum. Mynd/Halla Ingólfsdóttir


Spilað af fingrum fram

Strætóinn fer á hálftíma fresti frá bryggjunni. Hann keyrir að vita eyjarinnar og norður að lundabyggð. Stoppað er hjá heimskautsbaugsmerki og kirkju bæjarins. Ferðin endar svo aftur á höfninni. Einnig eru ferðir frá flugvellinum.

Sigurður segir leiðina samt ekki vera fasta. „Það eru engar biðstöðvar og við erum ekki með eitthvað strætóskýli og við ætlum ekki að fá okkur svoleiðis. Við spilum þetta bara fingrum fram!“ segir hann.

Grímsey er um 5,3 ferkílómetrar að stærð og fimm kílómetrar þar sem hún er lengst. Ferðin tekur því ekki langan tíma og teymið ætlar sér að keyra rólega. „Við keyrum ekki á ofsahraða hér. Það er keyrt löturhægt enda ekkert stress í gangi!“ segir hann „Það er ekki klukka í Grímsey, bara dagatal.“

Grímsey er um fimm kílómetrar í heildarlengd og er strætóferðin …
Grímsey er um fimm kílómetrar í heildarlengd og er strætóferðin því stutt. Ljósmynd/Friðþjófur Helgason


Dúfnahólar 10

Aðspurður segir Sigurður bílinn ekki heita neitt. „Þetta er bara strætóinn hans Sigga,“ hlær Sigurður. Bíllinn er enn merktur sem „Leið 1 Akureyri“ en Sigurður ætlar sér að breyta því. Hann er ekki viss hvernig sú merking verður en telur líklegt að það verði gert í samstarfi við Akueyri, enda sé Grímsey hluti af því sveitarfélagi. Annars hafi hann íhugað að merkja bílinn Dúfnahólum 10. „Við verðum að sjá eitthvað broslegt við þetta allt saman!“

Heimamenn munu ekki nota strætóinn en ef þeir skyldu þurfa á honum að halda er Sigurður tilbúinn að lána þeim hann. „Þeir voru að leika sér með hann um daginn. Það var haldið sextugsafmæli og einn fékk bílinn lánaðan og keyrði hann um alla eyjuna og gestir höfðu gaman af.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert