Gerðu þarfir sínar nálægt leikskóla

Ferðamennirnir settu niður tjald og fleira rétt hjá leikskólanum.
Ferðamennirnir settu niður tjald og fleira rétt hjá leikskólanum. Ljósmynd/Fanney Ósk Ríkharðsdóttir

„Við sáum einn fara inn í skóg til að gera þarfir sínar. Það sést greinilega að þetta er leikskóli þannig að þeir ættu að vita betur,“ segir Fanney Ósk Ríkharðsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Tjarnarskógi á Egilsstöðum.

RÚV greindi frá því að í morgun hefðu leikskólakrakkar og starfsmenn orðið vör við að búið var að tjalda í Tjarnargarðinum, rétt fyrir utan leikskólagirðinguna. Fanney sá tvo menn koma skríðandi úr tjaldinu, annar fór að taka til en hinn inn í skóg til að gera þarfir sínar. 

„Þetta var mjög ósmekklegt, þetta er garðurinn þar sem 17. júní hátíðin er haldin og þarna eru hoppukastalar og fleira.“

Hún segist ekki hafa orðið lent í álíka uppákomu en hefur þó heyrt af því að þetta sé að gerast um allan bæ. „Húsbílar eru að stoppa hjá Selskógi og fólk gerir þarfir sínar þar. Það hefur líka sést á gamla tjaldsvæðinu.“

Leikskólabörnin veltu tjaldinu fyrir sér en sáu ekki ferðamanninn athafna sig. Kennararnir áttuðu sig hins vegar á hvað var í gangi. Þá segir Fanney að grunnskólanemendur hefðu verið í frisbígolfi rétt hjá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert