„Sóðalegt og óvirðing við náttúruna“

„Þetta er bara sóðalegt og er óvirðing við náttúruna,“ segir Helga Freydís um ruslið sem er að finna á víðavangi. Hún var einn af fjölmörgum starfsmönnum Vinnuskólans í Kópavogi sem gengu um bæinn og tíndu rusl af götunum í dag í átaki bæjarins gegn rusli og plasti.

mbl.is kíkti á krakkana sem voru að tína ruslið í dag en þau segjast hafa fundið mikið af umbúðum og sælgætisbréfum. Þá þurftu þau að burðast með stærðarinna skottertu sem hafði ekki verið hreinsuð síðan á áramótunum.

Tilkynning bæjarins vegna átaksins:

Kópavogur gegn plasti

Vinnuskólinn í Kópavogi og starfsmenn Þjónustumiðstöðvar bæjarins, alls á sjöunda hundrað manns hafa síðan í morgun unnið að því að hreinsa plast og rusl í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, setti daginn, sem ber heitið „Kópavogur gegn plasti“. Auk Vinnuskólans og Þjónustumiðstöðvar Kópavogs veitir Blái herinn liðsauka við hreinsun strandlengju bæjarins.

Settir hafa verið upp gámar á fimm stöðum í bænum og eru bæjarbúar hvattir til þess að nýta sér þá og taka þátt í hreinsunni. Plastið sem safnast verður sent í endurvinnslu en fyrst vigtað.

Gámarnir eru á eftirfarandi stöðum: Við Hörðuvallaskóla, Álfhólsskóla, Menntaskólann í Kópavogi, Kársnesskóla og Lindaskóla. Þeir munu standa þar til á morgun, miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert