Ákærð fyrir hættulega líkamsárás

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Embætti héraðssaksóknara  hefur gefið út ákæru í þremur liðum á hendur 25 ára konu. Í fyrsta lagi er hún ákærð fyrir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Hún er sökuð um að hafa, aðfararnótt 29. ágúst 2015 á skemmtistaðnum Cafe Amor að Ráðhústorgi á Akureyri, veist að annarri konu, togað hana niður í gólf með því að rífa í hár hennar, setjast ofan á hana þar sem hún lá á gólfinu og haldið henni niðri.

Fimm spörk í höfuð

Hún er sökuð um að hafa sparkað að minnsta kosti fimm sinnum í höfuð konunnar og einu sinni ofarlega í bringu þar sem hún lá í gólfinu og þegar hún reyndi að reisa sig við. Konan hlaut af líkamsárásinni tognun í hálsi, mar og yfirborðsáverka á höfði, hálsi og bringu, að því er segir í ákærunni.

Með sprautu að vopni

Konan er í öðru lagi einnig ákærð fyrir hættubrot og hótanir með því að hafa mánudagskvöldið 5. september 2016 slegið til manns með sprautu og hafnaði sprautunálin í vinstra handarbanki hans er hann setti höndina fyrir andlit sitt og reyndi að verja sig.

Konan er sögð hafa í framhaldinu á Glerárgötu á Akureyri hlaupið að manninum í að minnsta kosti þrjú skipti með sprautuna á lofti og hótað á sama tíma að drepa hann.

Ákærða var á þessum tíma smituð af lifrarbólgu C og þarf að mæta í blóðprufur reglulega þar til ár er liðið frá atvikinu til að kanna með smit.

Með fíkniefni í tösku

Konan er í þriðja lagi ákærð fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa mánudagskvöldið 5. september haft í vörslum sínum í tösku 0,85 grömm af marijúana.

Sömuleiðis hefur verið gefin út einkaréttarkrafa vegna annars liðs ákærunnar. Þar er konunni gert að greiða manninum rúmlega tvær milljónir króna í skaða- og miskabætur með vöxtum.

Húsnæði embættis Héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis Héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert