Fimm ára umbótaáætlun

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. mbl.is/Golli

Sveitarfélagið Skútustaðahreppur og 15 rekstraraðilar í Skútustaðahreppi hafa sent inn sameiginlega umbótaáætlun um fráveitumál í sveitarfélaginu til Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra (HNE).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skútustaðahreppi en lögð er fram fimm ára umbótaáætlun. Hún er unnin vegna krafna HNE þar sem lögð er fram krafa um tímasetta áætlun um úrbætur þar sem fram kemur hvernig og fyrir hvaða tíma sveitarfélagið muni taka í notkun skólphreinsivirki fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð og á Skútustöðum sem fullnægir kröfum um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa. 

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Í umbótaáætluninni er lögð er áhersla á að rannsaka og kanna frekar þann möguleika að losa fráveituvatn í borholur. Í minnisblaði sem Magnús Ólafsson jarðefnafræðingur hjá ÍSOR tók saman fyrir Skútustaðahrepp og rekstraraðila er lagt til að skoða þann möguleika vel að dæla fráveituvatni, sem almennt rennur frá hefðbundnum rotþróum niður í borholur.

Þannig væri hægt að farga næringarefnaríku frárennslisvatni. Gert er ráð fyrir undirbúningi til næsta vors og gerð verði tilraun með niðurdælingu næsta sumar, fáist til þess fjármagn frá ríkisvaldinu.

Heildarkostnaður fráveituframkvæmdanna fyrir sveitafélagið er áætlaður um 500-700 m.kr. en fyrir rekstraraðila má áætla að kostnaðurinn hlaupi á hundruðum milljóna króna. Sveitarfélagið hefur fundað með umhverfisráðherra og fjármálaráðherra um aðkomu ríkisvaldsins hvað varðar fjármögnun og lofar fundurinn góðu um framhaldið, segir í tilkynningunni.

Ein af helstu forsendum þess að ráðist er í svo kostnaðarsamar framkvæmdir í fráveitumálum hlýtur að vera að vöktun á lífríki Mývatns verði aukin til muna til að meta stöðuna og áhrif framkvæmdanna á lífríkið til framtíðar. Þetta er langtímaverkefni en á fundi fulltrúa sveitarstjórnar með fjármálaráðherra og umhverfisráðherra 24. maí s.l. um fráveitumál í Skútustaðahreppi greindi umhverfisráðherra frá því að ráðuneytið ætlar að setja aukið fjármagn í rannsóknir og vöktun Mývatns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert