Ógilti ákvörðun Skipulagsstofnunar

Fyrirhuguð lóð Silicor á Grundartanga.
Fyrirhuguð lóð Silicor á Grundartanga.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð framkvæmd Silicor Materials á Grundatanga vegna sólarkísilvers skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Íbúar Kjósarhrepps og Hvalfjarðar höfðuðu málið gegn Silicor Materials, íslenska ríkinu og Skipulagsstofnun.

Stefndu skulu greiða hverjum stefnanda 30 þúsund krónur í málskostnað.

„Silicor telur sig hafa í einu og öllu fylgt lögum, reglum og leiðbeiningum eftirlitsstofnana. Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar ásamt ítarlegum upplýsingum. Skipulagsstofnun kallaði síðan eftir áliti allra fagstofnana og komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði óveruleg umhverfisáhrif í för með sér og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Dómurinn telur formgalla á þeirri ákvörðun og því verður að endurtaka málsmeðferðina," segir í yfirlýsingu frá Davíð Stefánssyni, ráðgjafa Silicor Materials á Íslandi. 

„Silicor telur enn að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og jafnvel þótt slíkt mat færi fram að þá standist framkvæmdin alla skoðun í þeim efnum."

Í yfirlýsingunni segir einnig: „Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvaða áhrif dómurinn hefur á undirbúning verkefnisins. Silicor mun taka sér tíma til að kynna sér forsendur dómsins og leggja mat á það hvernig fyrirtækið bregst við. Silicor tilkynnti nýlega þá ákvörðun að hægja á undirbúningi verkefnisins og endurskoða það þannig að ekki er víst að þessi niðurstaða valdi neinum töfum umfram það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert