Andlát: Régis Boyer

Próf. Régis Boyer lést í París í gærmorgun 16. júní, rétt tæplega 85 ára gamall. Hann var prófessor í norrænum fræðum við Sorbonne og um árabil einn ötulasti þýðandi íslenskra bókmennta á frönsku, bæði fornra og nýrra.

Sem ungur maður bjó hann á Íslandi, var sendikennari í frönsku við Háskóla Íslands frá 1961 til 1963. Hann var þá að vinna að doktorsritgerð sinni um trúarlíf á Íslandi á Sturlungaöld. Eftir að hann fluttist heim fékk hann stöðu sem prófessor við Sorbonne þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun 2001.

Próf. Boyer var áhrifaríkur fræðimaður, af þeirri kynslóð sem dró fram hlut evrópskrar menningar í tilurð fornsagnanna. Eftir hann liggja ótal fræðirit um fornsögurnar, norræna trú, goðsögur, víkinga og margt fleira, auk þess sem hann ritaði bæði greinar og bækur sem ætlaðar voru almenningi.

Hann þýddi jöfnum höndum fornrit og nútímabókmenntir úr norsku, dönsku, sænsku og þó sérstaklega íslensku. Meðal íslenskra höfunda sem hann kom á framfæri í heimalandi sínu eru Halldór Laxness, Thor Vilhjálmssson, Jón Óskar, Svava Jakobsdóttir, Sigurður Pálsson, Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir.

Viðtal við Boyer sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í september 1997

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert