„Eigi skal víkja“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti hátíðarávarp …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti hátíðarávarp á Hrafnseyri í dag en sjálf á hún ættir að rekja til Vestfjarða. mbl.is/Golli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, gerði jafnréttismál og þátt kvenna í íslensku samfélagi meðal annars að umræðuefni í hátíðarávarpi sem hún flutti á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, í dag 17. júní.

Þórdís fór víða í ræðu sinni og vitnaði hún meðal annars í harðfylgi og ákveðni íslenskra landsnámskvenna, einkum Grelöðu eiginkonu Áns landnámsmanns, sem nam land í Arnarfirði.

„Ekki munu vera mörg skrásett dæmi um slíkt harðfylgi af hálfu landnámskvenna. Mér er því ljúft og skylt að halda hér til haga þessu ágæta dæmi um að konur á Íslandi hafa átt það til alveg frá upphafi, að sitja við sinn keip, og lifa samkvæmt kjörorði Jóns Sigurðssonar: „Eigi skal víkja,““ sagði Þórdís sem fór víða í ræðu sinni.

Í ávarpi sínu nefndi Þórdís mörg þau baráttumál sem Jón Sigurðsson hafi gert hátt undir höfði, meðal annars hvað varðar mikilvægi menntunar og viðskiptafrelsis, og setti í samhengi við það sem áunnist hefur í þeim efnum frá tímum Jóns Sigurðssonar. Annað mikilvægt málefni hafi þó ekki verið ofarlega á dagskrá hjá Jóni.

„Eigum ennþá talsvert í land“

„Jafnrétti kynjanna var ekki eitt af baráttumálum Jóns Sigurðssonar en mér finnst við hæfi að nefna það hér sem eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við eigum ólokið,“ sagði Þórdís „Okkur finnst margt hafa áunnist, og það er alveg rétt. Okkur finnst við standa framarlega á heimsvísu, og það er staðreynd. En við eigum ennþá talsvert í land. Hlutgerving kvenna er áberandi í dægurmenningunni sem börnin okkar alast upp við,“ bætti Þórdís við. Vék hún þá til dæmis að sýnileika og aðkomu kvenna í íslenskum fjölmiðlum.

Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar.
Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar. Ljósmynd/Jim Smart

„Konur eru aðeins þriðjungur viðmælenda í fréttum og þáttum Ríkisútvarpsins og 365 miðla. Konur eru í minnihluta meðal frumkvöðla og forsvarsmanna sprotafyrirtækja. Yfirgnæfandi meirihluti æðstu stjórnenda fjármálafyrirtækja, fjárfestingarsjóða og lífeyrissjóða eru karlar, sem þýðir að karlar stýra fjármagninu á Íslandi og fara því með þau gífurlegu völd sem því fylgja. Úrelt viðhorf til kynjanna eru víða og ganga í báðar áttir,“ sagði Þórdís.

Þá nefndi hún sem dæmi baráttu feðra þegar kemur að umgengni við börn sín og segir öll þau atriði er hún taldi upp ennþá standa í vegi fyrir því að Ísland geti staðið fyllilega undir nafni sem land tækifæranna. „Og rétt eins og landnámskonan forðum hér á þessum stað, eigum við ekki að sætta okkur við ágallana á umhverfi okkar heldur bæta úr þeim,“ sagði Þórdís ennfremur.

Sem fyrr segir fór Þórdís um víðan völl í ræðu sinni en hana má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert