Fyrrverandi fasteignasali kærir gjaldtöku

Málið er til skoðunar hjá lögfræðingi ráðuneytisins.
Málið er til skoðunar hjá lögfræðingi ráðuneytisins. mbl.is/Golli

Brynja Björg Halldórsdóttir, hdl. og fyrrum löggiltur fasteignasali, hefur kært til ráðherra framkvæmd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við innheimtu árlegs gjalds sem ætlað er að standa straum af kostnaði við eftirlitsnefnd fasteignasala.

Brynja hætti fasteignasölu fyrr á þessu ári og hélt til annarra starfa, en í júní var hún krafin um gjaldið, 75 þúsund krónur, og er gjalddagi kröfunnar 1. júlí. Lagði hún réttindi sín inn hjá sýslumanni og fékk þær upplýsingar að krafan yrði niður felld.

Síðar, þegar hún hafði samband við ráðuneytið, fékk hún aftur á móti þær upplýsingar hjá lögfræðingi að krafan yrði ekki felld niður og að hún gæti ekki fengið endurgreitt. Vísað var í 3. mgr. 19. gr reglugerðar nr. 931/2016, sem hefur stoð í lögum nr. 70/2015.

Í reglugerðarákvæðinu segir að fasteignasalar sem greitt hafi gjaldið, en láti af störfum áður en sá tími er liðinn, sem fjárhæð gjaldsins er miðuð við, eigi ekki rétt á endurgreiðslu þess eða hluta þess.

Rukkað óháð eftirliti

Brynja telur að um of víðtækt framsal löggjafarvalds til ráðuneytisins sé að ræða, enda sé í lögunum einungis gefin heimild til að innheimta gjald vegna kostnaðar sem falli til vegna eftirlitsins. Hins vegar sé reglugerðarákvæðið mun meira íþyngjandi en lagaákvæðið.

„Verklagið er greinilega það, að 1. maí á hverju ári er keyrður út listi um löggilta fasteignasala og allir sem eru á honum fá kröfu í heimabankann, óháð því hvort þeir sæti svo eftirlitinu eða ekki,“ segir Brynja.

„Ég fékk þær upplýsingar að ég yrði rukkuð um þetta hvort sem ég hefði verið háð eftirliti í tólf mánuði eða einn dag,“ bætir hún við.

Brynja nefnir Lögmannafélagið til samanburðar, en fyrr á árinu fékk hún þaðan upplýsingar um að þegar lögmenn leggi inn málflutningsréttindi hafi félagið boðið þeim að fá lögbundið félagsgjald endurgreitt aftur í tímann í hlutfalli við mánuði sem þeir notuðu ekki réttindin.

Brynja telur að í raun sé um skattheimtu að ræða í ljósi þess að gjaldið renni ekki til eftirlitsins og þar af leiðandi skapi framkvæmdin áleitnar spurningar um kröfur sem verði að gera til jafnræðis í skattheimtu.

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala og nefndarmaður í eftirlitsnefnd með fasteignasölum, segist sammála Brynju um að ástæða sé til að skoða grundvöll gjaldtökunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er málið nú á borði lögfræðings þess og unnið er að því að taka afstöðu í málinu. Niðurstöðu er að vænta innan skamms tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert