Útlendingar 25% atvinnulausra

Forstjóri Vinnumálastofnunar grunar að verið sé að nýta sér fáfræði …
Forstjóri Vinnumálastofnunar grunar að verið sé að nýta sér fáfræði fólks á réttindum sínum og skyldum á vinnumarkaði. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Nei, við höfum enga sérstaka skýringu á þessu. Sér í lagi þegar það liggur fyrir að verið er að flytja inn vinnuafl til landsins,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, spurður af hverju atvinnuleysi meðal útlendinga á Íslandi sé enn töluvert.

Alls voru 963 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok maí, eða um 25% allra atvinnulausra, en hafði fækkað um 48 frá apríl. Flestir erlendu ríkisborgararnir komu frá Póllandi, 567, eða um 59% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Á sama tíma, eða í maí, gaf Vinnumálastofnun út 162 atvinnuleyfi til útlendinga til að starfa hér á landi. Hefur stofnunin gefið út 760 atvinnuleyfi það sem af er ári.

Heillar fáfræðin?

Gissur óttast að verið sé að nýta sér fáfræði fólks sem kemur til landsins í fyrsta sinn til að vinna.

„Ég hef ekkert haldbært fyrir mér í þessu en mig grunar að verið sé að nýta sér fáfræði fólks á réttindum sínum og skyldum á vinnumarkaði. Þeir sem eru hér fyrir þekkja frekar sinn rétt og fá síður vinnu.“

Skráð atvinnuleysi í maí var 1,9% og minnkaði um 0,2 prósentustig frá apríl. Að meðaltali voru 422 færri á skrá í maí í ár en í maí í fyrra, en þá mældist atvinnuleysi 2,2%. Í maí voru að jafnaði 3.596 einstaklingar á skrá í mánuðinum. Fækkaði um 227 á atvinnuleysisskrá frá aprílmánuði.

Að jafnaði minnkar atvinnuleysi milli maí og júní, meðal annars vegna árstíðasveiflu. Gert er ráð fyrir að svo verði einnig í ár og að atvinnuleysi verði á bilinu 1,6-1,8% í júní. Gangi það eftir yrði það minnsta atvinnuleysi frá því fyrir bankahrunið 2008.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert