„Það varð lítil uppreisn í vélinni“

Elva Björk Ágústsdóttir.
Elva Björk Ágústsdóttir. Ljósmynd/Facebook

„Það varð lítil uppreisn í vélinni. Fólk var orðið svolítið fúlt og maður fann dálítið til með flugþjónunum,“ segir Elva Björk Ágústsdóttir í samtali við mbl.is. Elva var farþegi í vél flugfélagsins Vueling sem var á leið til Keflavíkur frá Barcelona í gærkvöldi en var síðan snúið við til Skotlands þar sem henni var lent í Edinborg.

Að sögn Elvu var vélin við það að lenda í Keflavík þegar henni er allt í einu kippt upp á við aftur og flogið í aðra átt. Héldu farþegar þá að lenda ætti á Akureyri eða á Egilsstöðum en í ljós kom að förinni væri heitið til Edinborgar. Þegar þangað var komið fengu farþegar þær upplýsingar það þeir gætu ekki farið frá borði í Edinborg þar sem flugfélagið hefði ekki heimild til að afferma vélina í Edinborg og ekkert starfsfólk væri á flugvellinum sem gæti tekið á móti þeim. Þess í stað átti að fylla vélina af eldsneyti og fljúga aftur til Barcelona sem lagðist afar illa í farþega.

„Þá bara „snappar“ hópur fólks í vélinni. Það stendur upp hágrátandi móðir með lítið ungbarn og harðneitar að fara með vélinni áfram, skíthrædd og þorir ekkert að fara með þessum flugmanni áfram,“ segir Elva. „Eftir sirka þriggja klukkutíma þras og spjall við lögreglu/gæsluverði fær unga konan með kornabarnið að fara frá borði. Þá er okkur tilkynnt að við taki nokkurra klukkustunda bið meðan leitað er að töskum.“

Að endingu var allur farangur tekinn úr vélinni en alls biðu farþegarnir því í um þrjá klukkutíma áður en loks var ákveðið að hleypa þeim út. Þá höfðu farþegar verið í vélinni í um 9 klukkutíma frá því að lagt var af stað frá Barcelona.

Elva Björk er ásamt hópi fólks, þar á meðal tveimur ungum börnum sínum, en þau hafa keypt sér miða heim með WOW air í hádeginu í dag og bíða því enn á flugvellinum. „Við erum 10 manns að ferðast saman þannig að þetta eru hundruð þúsunda sem það kostar að koma okkur heim. Og eins og staðan er núna, þrátt fyrir að fylgja öllum upplýsingum sem að við erum búin að fá í tölvupósti, vitum við ekkert ennþá hvar vélin okkar er,“ segir Elva.

Flugvél Vueling á leið til Íslands frá Barcelona var einnig snúið við í síðasta mánuði vegna slæmra veðurskilyrða.

Uppfært kl. 12:40

Samkvæmt upplýsingum öðrum farþega vélarinnar hefur nú veril tilkynnt að vél Vueling sé enn í Edinborg og muni leggja af stað aftur til Íslands klukkan 18:20 í kvöld. Flugfélagið hafi útvegað farþegum hótel þar sem þeir fengu einnig að borða.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert