Einn á mánuði þarf meðferð vegna líkamsræktar

Einn í hverjum mánuði þarf meðferð á bráðamóttöku vegna rákvöðvarofs.
Einn í hverjum mánuði þarf meðferð á bráðamóttöku vegna rákvöðvarofs. Ljósmynd/Thinkstock

Bráðamóttaka Landspítalans fær til sín að meðaltali einn einstakling á mánuði sem þarf meðferð vegna rákvöðvarofs eftir ofreynslu vöðva við líkamsrækt. Einkenni þess eru mjög slæmar harðsperrur og gífurlegur stirðleiki í vöðvum.

Hvað er rákvöðvarof (e. Rhabdomyolysis)?

„Rákvöðvarof er þegar á sér stað niðurbrot á vöðvum í líkamanum og er algengast að það gerist vegna hreinnar ofreynslu,“ segir Hjalti Már Björnsson, starfandi yfirlæknir á bráðamóttöku Landsspítalans. Við slíkt niðurbrot á vöðvum losna efni út í blóðið sem geta haft skaðleg áhrif á nýrun og því þarf í sumum tilvikum að gefa ríkulega af vökva í æð til þess að skola nýrun.

Hjalti segir slíkt niðurbrot á vöðvum í flestu tilvikum koma til vegna skarpar ofreynslu í stuttan tíma frekar en um sé að ræða langvarandi ofþjálfun. „Þá er fólk að pína sig meira en góðu hófi gegnir,“ segir Hjalti og bætir við að þó bráðalæknar vilji hvetja til heilbrigðra lífshátta og hreyfingar þá sé mikilvægt að hlusta á líkamann og ofgera sér ekki.

Getur leitt til nýrnabilunar

Í flestum tilfellum dugir að drekka vel af vökva og það er sjaldgæft að þurfi að leggja fólk inn. „Einstaka tilfelli sem koma til okkar með þessi einkenni þarf að gefa vökva í æð en langflestir fara beint heim, jafnvel þó þetta vandamál sé greint,“ segir Hjalti.

Rákvöðvarof er aðallega hættulegt ef lítið rennsli er í gegnum nýrun og ofþornun á sér stað. Ef slíkt á sér stað getur rákvöðvarofið leitt til nýrnabilunar.

Harðar æfingar auka líkurnar

Tíðni rákvöðvarofs fer eftir tískubylgjum í samfélaginu þegar kemur að líkamsrækt og íþróttaáreynslu en það eru ákveðin æfingakerfi sem byggja á hörðum æfingum og ef fólk stundar slíkar æfingar eru auknar líkur á rákvöðvarofi.

„Við viljum hvetja fólk til þess að fara hæfilega hægt og byggja upp kraftinn í æfingum yfir svolítinn tíma,“ segir Hjalti. Ennfremur sé mikilvægt að fólk sem stundar íþróttir og líkamsrækt passi að drekka hæfilegt magn af vatni á hverjum degi og gott er að miða við það að þurfa að pissa að minnsta kosti þrisvar yfir daginn.

Byrja á léttu álagi

„Ef svona kemur upp þarf að bakka í álaginu, hlusta á líkamann og byggja upp þolið yfir tíma“, segir Hjalti og ráðleggur fólki að byrja á gönguferðum og léttu álagi. Gott er að auka álagið smám saman.

Misjafnt er eftir tilfellum hvenær fólk geti byrjað aftur að hreyfa sig en gott er að bíða þar til stirðleikinn er að mestu farinn úr vöðvunum. Í sumum tilfellum getur það verið 1-2 dagar, en í öðrum 1-2 vikur.  

Lá inni á spítala í fjóra daga

Guðný var greind með rákvöðvarof á báðum höndum.
Guðný var greind með rákvöðvarof á báðum höndum. Ljósmynd/Guðný Bernódusdóttir

Guðný Bernódusdóttir greindist með rákvöðvarof í báðum höndum í apríl s.l. og var í kjölfarið lögð inn á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum í 4 daga. Guðný fékk vökva og steinefni í æð allan tímann en hún leitaði til læknis þremur dögum eftir æfingu. Hún hafði mjög slæma verki og gat ekki hreyft hendurnar.

„Ég fór bara til læknis til þess að fá verkjalyf svo ég gæti lært fyrir próf og var svo bara strax lögð inn“, segir Guðný í samtali við mbl. Æfingin sem leiddi til rákvöðvarofs var hádegisæfing sem Guðný er vön að stunda og hún segist ekki hafa fundið fyrir að hafa ofreynt sig.

Heppin að læknir á vakt þekkti einkennin

Guðný er heppin að einn af læknum á vakt á þessum tíma í Vestmannaeyjum þekkti til rákvöðvarofs. „Hann hafði sem betur fer heyrt af þessu í Reykjavík en það vissu ekki margir um þetta í Vestmannaeyjum,“ segir Guðný.

Tilfelli Guðnýjar var alvarlegt og var hún frá vinnu í mánuð í kjölfarið. Í dag finnur hún ekki lengur fyrir einkennum í höndunum fyrir utan það að nánast allur vöðvamassi tapaðist.

Vissi ekkert hvað þetta var

Inga var frá vinnu í viku vegna ráðkvöðvarofs.
Inga var frá vinnu í viku vegna ráðkvöðvarofs. Ljósmynd/Inga Sigríður Björnsdóttir

Í síðasta mánuði var Inga Sigríður Björnsdóttir greind með rákvöðvarof í annarri hendinni. Höndin stífnaði öll upp, tútnaði út og festist í 90 gráðum. „Ég er voða venjuleg manneskja sem fer bara í spinning og stundum að lyfta, er ekkert í slæmu formi en ekkert í dúndur formi heldur,“ segir Inga og hlær.

Eins og Guðný gat Inga ekki rétt úr hendinni og byrjaði hún að stífna við olnboga. Inga fór á æfingu á mánudegi og leitaði svo til læknis á fimmtudegi en hún hafði ekki heyrt af rákvöðvarofi fyrr en hún lenti í því sjálf.

Beið í níu klukkustundir eftir greiningu

Inga þurfti svo að bíða lengi eftir að fá greiningu á vandamálinu. „Þeir spurðu hvort ég væri í Crossfit eð fíkniefnum og af því ég sagði nei við báðu var eins og þeir hafi útilokað þetta [rákvöðvarof],“ segir Inga.

Sex mismunandi læknar skoðuðu Ingu en í byrjun var talið að hún væri með blóðtappa eða sýkingu í húð. Loks var hún greind með rákvöðvarof og var þá send heim sagt að drekka 4 lítra af vatni á dag í 4 daga og koma svo aftur í blóðprufu.

Jarðaberjaaskjan í Costco var þung

Í kjölfar rákvöðvarofsins var Inga frá vinnu í eina viku. Nánast allur fyrri vöðvamassi tapaðist í hendinni en Inga fór í Costco eftir atvikið og var þungt að halda á jarðaberjaösku. Það tók um 3-4 vikur að losna við öll einkenni og Inga ætlar að fara hægt  af stað í líkamsrækt aftur.

Skortur á rannsóknum um rákvöðvarof

Samkvæmt grein úr læknablaðinu frá 2016 voru 54 einstaklingar greindir með ráðvöðvarof á árunum 2008-2012 á bráðamóttöku Landspítalans. Aðeins einn af þeim fékk bráðan nýrnaskaða sem gekk svo til baka eftir meðferð.

Oftast höfðu þessir einstaklingar reynt meira á sig en þeir voru vanir eða langt síðan líkamsrækt var stunduð síðast. Samkvæmt greininni er skortur á rannsóknum um rákvöðvarof á Íslandi en rannsóknin náði aðeins til þeirra tilfella sem komu til meðferðar á Landspítala.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert