Af stað en ekki of geyst

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ófeigur

„Ég er mjög ánægður með þetta. Ég hef unnið að þessu lengi og núna er eitthvað farið að gerast, sem betur fer, því það má ekki seinna vera,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Það er óhætt að segja að Eiríkur hafi á síðustu 20 árum unnið ötullega að þróun máltækni hér á landi og bent á mikilvægi þess að íslenskan haldi velli í hinum starfræna heimi.

„Það er mikilvægt að fara af stað sem fyrst en samt ekki of hratt af því að þá er hætta á að þetta takist ekki nógu vel,“ segir Eiríkur spurður nánar út í aðgerðaráætlunina sem er til fimm ára. Hann bendir á að þegar henni lýkur verður áfram þörf fyrir máltækni. „Þetta er eilífðarverkefni. Tæknin hættir ekki að æða áfram þegar máltækniáætlunin er komin í gagnið,“ segir Eiríkur. 

Í því samhengi bendir hann á að mikilvægt sé að áhersla verði lögð á menntun í máltækni því átakið í máltækni skapar þörf á fólki með menntun á mismunandi sviðum máltækninnar. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa staðið saman að þverfaglegu meistaranámi í máltækni. Hins vegar hefur námið verið rekið af vanefnum undanfarin ár og hvorki kennarar hafa fengist til starfa né verið fjármagn til að bjóða upp á námskeið. Námið liggur því núna niðri, að sögn Eiríks. 

Starfshópur um menntun í máltækni, sem er á vegum stýrihóps íslenskrar máltækni, leggur til að þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu við HÍ og HR verði endurskipulagt og eflt. Lagt er til að hvor skóli um sig fái 10 milljónir króna viðbótarfjárveitingu hvert ár, tímabundna til fimm ára, til að unnt sé að halda náminu úti.

„Það er grundvallaratriði að námið haldi áfram svo við eigum menntað fólk sem getur unnið áfram í þessu verkefni,“ segir Eiríkur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert