„Ég hugsa um að hjóla“

Jón Óli skellti í sjálfu í síðustu löngu æfingunni.
Jón Óli skellti í sjálfu í síðustu löngu æfingunni. Ljósmynd/Jón Óli Ólafsson.

Jón Óli Ólafsson er einn af fjórum keppendum í einstaklingsflokki WOW Cyclothon í ár. Þar að auki er hann eini Íslendingurinn í þeim flokki. Jón Óli er 47 ára gamall og stofnandi reiðhjólaverslunarinnar Götuhjól.

Keppnin WOW Cyclothon er í formi boðhlaups þar sem lið skipta á milli sín að hjóla hringinn í kringum Ísland. Þeir sem taka þátt í einstaklingskeppninni hjóla hins vegar alla 1358 kílómetrana ein síns liðs.

Vætusamur undirbúningstími

Jón Óli segir undirbúninginn hafa gengið vel en hann byrjar um sex til átta mánuðum fyrir keppni. Hins vegar hafi veðrið ekki verið eins gott og síðustu ár en þetta er í þriðja skiptið sem hann tekur þátt og er hann því öllu búinn. Segir hann undirbúningstímann hafa verið sérstaklega vætusamann í ár. Árið 2015 tók hann í fyrsta skipti þátt og komst þá ekki lengra en að Mývatni. Árið 2016 tók hann aftur þátt en þurfti aftur að hætta keppni fyrr.

Í einstaklingskeppninni hjóla keppendur hringinn í kring um landið á 84 klukkutímum. Segir Jón Óli það vera mjög mismunandi hvernig keppendur skipuleggi ferðina. Sumir taka styttri túra og fleiri pásur á meðan aðrir hjóla lengur í einu og hvíla svo. 

„Við erum með þrjú hjólaplön í gangi. Við byrjum á einu plani og svo sjáum við hvernig gengur, tímalega og hvar við erum staddir. Svo tökum við stöðuna [...] hvort við séum á áætlun eða ekki og tökum svo kannski næsta plan og svona koll af kolli,“ segir Jón Óli.

Einn í liði 

Þrátt fyrir að sjá alfarið um að hjóla leiðina er hann með sterkt lið að baki sér auk styrktaraðila. „Ég hugsa um að hjóla,“ segir Jón „þeir eru með hjólaplan, matarplan og hugsa alfarið um að láta mig drekka og borða. Þar sem við stoppum í lengri tíma fæ ég kannski aðeins meira að borða en inn á milli.“ Liðið sér einnig um að taka ákvarðanir um hvort haldið sé áfram eða ekki, þeir sjá mestu breytingarnar á líðan keppanda og taka ákvarðanir út frá því.

„Maður er auðvitað mjög þrjóskur þegar kemur að því að hjóla og ekki í standi til þess að taka einhverjar ákvarðanir sjálfur.“ Segir hann það vera ástæðuna fyrir því að vera með þrjá góða menn með sér en það eru þeir Tómas Hilmar Ragnarz, Þór Bæring Ólafsson og Helgi Kjærnested sem fylgja honum í ár. Kalla þeir sig „Regus Team“ en auk þeirra eru að baki Jóni Óla styrktaraðilarnir Regus, Orange Project, Gaman ferðir, Götuhjól, Logo, Signa skiltagerð og Red Bull. 

Ljósmynd/Jón Óli Ólafsson.

Markmiðið að klára

Hann segir að markmiðið sé alltaf að klára en auðvitað sé margt á leiðinni sem getur truflað. Er það þá helst veðrið en það hefur mikil áhrif hvort það sé rigning, sem að hans sögn er einn mesti óvinurinn, eða mikill vindur. „Maður er alltaf bjartsýnn og alltaf með hugarfarið að klára. En það verður að koma í ljós. Númer eitt, tvö og þrjú er að klára“ segir hann að lokum.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Jóns Óla á Facebook og á heimasíðu WOW Cyclothon auk þess sem bein útsending er frá keppninni á stöð 0 í Sjónvarpi Símans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert