Enn hægt að sjá heimili á Já.is

Margrét segir það vissulega vonbrigði að þurfa að gera breytingar …
Margrét segir það vissulega vonbrigði að þurfa að gera breytingar á vef Já.is. ljósmynd/Já.is

Já hf, sem heldur úti vefsíðunni Já.is, mun í dag senda Persónuvernd lýsingu á því hvernig fyrirtækið ætlar að tryggja í framtíðinni að birting mynda af heimilum einstaklinga á vefsíðu þeirra brjóti ekki í bága við lög.

Er fyrirtækið með því að bregðast úrskurði Persónuverndar frá því fyrr í júní, en stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að birt­ing mynda af heim­il­um ein­stak­linga á vefsíðunni Já.is, sem koma upp þegar leitað er eft­ir upp­lýs­ing­um um þá á síðunni, sam­ræmdist ekki lög­um um per­sónu­vernd. Fresturinn til að skila inn lýsingu á úrbótum rennur út í dag, 19 júní.

Þessi birting mynda brýtur í bága við lög, samkvæmt úrskurði …
Þessi birting mynda brýtur í bága við lög, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Ljósmynd/Já.is

Enn er því hægt að sjá myndir af heimilum einstaklinga þegar leitað er eftir upplýsingum um þá á síðunni. Margrét Gunn­laugs­dótt­ir, vöru- og viðskiptaþró­un­ar­stjóra Já.is, segir fyrirtækið ekki ætla að fjarlægja myndirnar fyrr en eftir að viðbrögð fáist við lýsingu á úrbótunum Persónunvernd. „Við eigum að gefa þeim skriflegt svar um það með hvaða hætti við ætlum að bregaðst við úrskurðinum, sem við munum gera. Eftir að okkur berst svar frá þeim munum við grípa til aðgerða.“

Korta­vef­ur Já.is hef­ur verið uppi frá því árið 2013 en birt­ing­ar­formið sem um ræðir hef­ur verið notað í um ár. Þegar korta­vef­ur­inn var sett­ur upp leitaði fyr­ir­tækið samþykk­is Per­sónu­vernd­ar, sem birti ákvörðun um málið það sama ár. Samkvæmt þeirri niðurstöðu var Já.is heimilt að birta myndir af heimilum einstaklinga, teknar úr götuhæð, en þær yrðu að vera ópersónugreinanlegar, andlit afmáð, sem og skráningarnúmer ökutekja.

Birtingarform sem samræmist lögum, að mati Persónuverndar.
Birtingarform sem samræmist lögum, að mati Persónuverndar. Ljósmynd/Já.is

Margrét segir fyrirtækið vera búið að vinna að tillögum um það hvernig það ætli að leysa málið og má því búast við breytingum á vef Já.is á næstunni.

Aðspurð hvort það séu ekki vonbrigði að þurfa að breytingar á vefnum aðeins ári eftir að þessu ákveðna birtingarformi var komið á, segir Margrét það vissulega svo. „Þetta er ákveðin þjónusta sem við höfum verið að veita notendum og það hefur sýnt sig að þeir eru að nýta sér þetta. Við hlítum þessu samt og finnum bara einhverja betri leið.“

Margrét segir fyrirtækið hafa fengið mjög fáar beiðnir frá einstaklingum um að afmá eða taka út myndir af húsum á vefsíðunni. „Það er því okkar skilningur að það sé almenn ánægja hjá fólki með birtingu myndanna. Fólki finnst þægilegt að geta skoðað staðina sem það er að fara á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert