Forseti og ráðherra heimsóttu Barnaspítalann

Guðni forseti spjallaði við krakkana á spítalanum.
Guðni forseti spjallaði við krakkana á spítalanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra heimsóttu Barnaspítala Hringsins í dag en spítalinn er 60 ára í dag.

Samhliða því færði Hringurinn kvenfélag Barnaspítalanum gjöf. Forseti og forsetafrú gáfu spítalanum einnig gjöf en yfirlæknir og deildarstjórar tóku á móti gestum og sýndu þeim deildirnar.

Guðni og Óttarr Proppé.
Guðni og Óttarr Proppé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fréttatilkynningu vegna afmælisins segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því að barnadeild var sett á fót í tveimur herbergjum á gamla Landspítalanum. 

Á síðasta ári lögðust vel á fjórða þúsund börn inn á legudeildir og dagdeild Barnaspítalans, um 14.000 börn komu á bráðamóttöku spítalans og tæplega 12.000 á göngudeildir.

Yfirlæknar og deildarstjórar tóku á móti gestum.
Yfirlæknar og deildarstjórar tóku á móti gestum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsfólk spítalans veitir umtalsverða ráðgjöf til annarra stofnana og innan spítalans er rekið Rjóðrið, hvíldar- og endurhæfingardeild fyrir langveik börn. Árangur Barnaspítala Hringsins stenst vel samanburð við barnaspítala Norðurlandanna. Öflugur stuðningur fjölmargra velunnara á þar stóran hlut að máli. Samhliða þjónustu við veik börn á Íslandi er Barnaspítalinn öflug kennslustofnun í tengslum við Háskóla Íslands og tekur þátt í fjölmörgum, mikilvægum rannsóknum.

Óttarr Proppé, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Óttarr Proppé, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert