Hluta skólalóðar lokað vegna glerbrota

Ekki gengu allir gestir Secret Solstice vel um nærumhverfi sitt.
Ekki gengu allir gestir Secret Solstice vel um nærumhverfi sitt. mbl.is/Styrmir Kári

„Það var talsvert af rusli á lóðinni hjá Laugarnesskóla,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar í samtali við mbl.is. Starfsmenn frístundaheimilis við Laugarnesskóla þurftu að loka hluta af skólalóðinni í morgun vegna glerbrota og rusls eftir hátíðarhöld helgarinnar.

Secret Solstice tónlistarhátíðin fór fram í Laugardalnum um helgina en talið er að um 20.000 manns hafi þar verið saman komnir. 

„Mér skilst á starfsmönnum frístundamiðstöðvarinnar að það hafi komið foreldrar og týnt ansi mikið af rusli í morgun, sem er mjög lofsvert framtak,“ segir Bjarni en sparkvöllur á skólalóðinni er enn lokaður vegna glerbrota. 

„Það eru glerbrot á sparkvelli á lóðinni sem þarf að hreinsa upp. Það er verið að kanna á vegum borgarinnar hvernig það verður tekið á því máli. Það þyrfti kannski að ryksuga það eða dusta með einhverjum sérstökum burstum. Þangað til er vellinum lokað,“ segir Bjarni og bætir við að samstarf borgarinnar við skipuleggjendur Secret Solstice hafi verið gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert