Komu að öllum bylgjum femínismans

„Á Hallveigarstöðum hafa konur og fólk, sem starfa að jafnréttisbaráttu …
„Á Hallveigarstöðum hafa konur og fólk, sem starfa að jafnréttisbaráttu kynjanna, kvenréttindum og kvennamáli, sína aðstöðu,“ segir Brynhildur, framkvæmdastýra Hallveigarstaða. Ljósmynd/ Hallveigarstaðir

Dagurinn í dag, 19. júní er Kvennadagurinn. Hann er helgaður kvenréttindum en 19. júní, árið 1915 fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Í dag fagnar Kvennaheimilið Hallveigarstaðir einnig 50 ára afmæli.

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir er að Túngötu 14 í Reykjavík. Það var byggt af kvennasamtökum og ætlað að vera miðstöð þeirra. Það er nefnt eftir Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonu í Reykjavík. Húsið var opnað árið 1967 en þá höfðu konur látið sig dreyma um það í hálfa öld. „Það hefur nú staðið í hálfa öld til og mun standa í heila öld í viðbót og hana nú!“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Hallveigarstaða.

Þrjú kvennasamtök standa að baki starfsseminni; Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélag Íslands og þau hafa öll aðstöðu í húsinu.

Draumurinn um Hallveigarstaði

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir er framkvæmdastýra Hallveigarstaða og hefur unnið í fimm ár hjá Kvenréttindafélaginu. Hún segir Hallveigastaði mikilvæga í sögu kvennabaráttunnar og hafa komið að öllum bylgjum femínismans. Draumurinn um Hallveigastaði hafi staðið af sér í rauninni alla sögu kvennabaráttunnar.

Hann hafi kviknað í fyrstu bylgju femínismans, þegar konur voru enn að sækjast eftir borgaralegum réttindum, þrátt fyrir að takmarkaður kosningaréttur kvenna hafi fengist árið 1919. „Þegar húsið var loksins opnað árið 1967 þá erum við að stíga inn í aðra bylgju femínismans, þar sem konur vakna upp á ný. Þrátt fyrir að  formleg réttindi kvenna væru þá komin var jafnrétti í raun ekki náð. Önnur bylgjan snérist því um jafnrétti í raun,“ segir Brynhildur.

„Nú erum við á allt öðrum tíma. Jafnrétti hefur að mörgu leyti náðst þrátt fyrir að það sé ekki komið fullkomlega.“ Brynhildur segir jafnréttisstöðuna hafa víkkað út. Það sé ekki lengur nóg að tala um kvenréttindabaráttu. Líta þurfi á jafnrétti í víðara samhengi. „Mannréttindabaráttan verður líka að haldast hönd í hönd við baráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks, trans, fatlaðra og baráttu fólks sem er af öðrum litarhætti en hvítum. Til þess að tryggja full kvenréttindi þurfum við að líta á baráttu kvenna í öllum stærðum og gerðum. Það er næsti stóri slagurinn í jafnréttisbaráttunni,“ segir hún.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir er framkvæmdastýra Hallveigarstaða.
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir er framkvæmdastýra Hallveigarstaða. Ljósmynd/Gunnar Freyr Steinsson

 

Hallveigarstaðir mikilvægir konum í dag

Hún segir að Hallveigarstaðir séu enn mikilvægir konum. „Það er fræg bók sem kom út á þriðja áratugnum í Bretlandi eftir Virginiu Wolf. Þar segir Wolf að það sé hverri konu mikilvægt að hafa sitt sérherbergi því í því herbergi geti hún hugsað, skrifað, verið hún sjálf og í raun lifað án karlasamfélagsins og karlanna í lífi hennar,“ segir hún. „Hallveigarstaðir eru þetta sérherbergi fyrir konur. Á Hallveigarstöðum hafa konur og fólk, sem starfa að jafnréttisbaráttu kynjanna, kvenréttindum og kvennamálum, sína aðstöðu.“

Þau sem starfa í kvenréttindabaráttunni geta leitað til Hallveigastaða fyrir fundarhald. „Sjálf hef ég starfað hjá ýmsum femínískum grasrótarhópum. Þeir deyja oftast þegar þeir eru ekki með fundarstað. Þegar við höfum ekki stað til að geyma skjöl og bækur og til að hittast þá glatast þetta. Hallveigarstaðir halda þannig utan um starf kvenna,“ segir Brynhildur.  

„Við varðveitum einnig þann gífurlegan fjársjóð sem kvennasagan er því við erum með miklar geymslur og við gætum þess að prentað efni kvenna týnist ekki.“

Nafnið Kvennaheimilið var gefið húsinu frá upphafi árið 1919 þar sem það átti, ásamt því að hýsa starfsemi kvenna, upphaflega að vera gistiheimili fyrir konur. Nafnið Hallveigarstaðir segir sína sögu. Húsið er nefnt eftir fyrstu landnámskonu Íslands, Hallveigar Fróðadóttur, er sigldi hingað til Reykjavíkur árið 874. „Við vildum heiðra hana, það vita auðvitað allir hver eiginmaður hennar er, Ingólfur Arnarson, en það vita afskaplega fáir um Hallveigu Fróðadóttur. Það var því sjálfsagt að skíra hús íslenskra kvenna í höfuðið á fyrstu íslensku landnámskonunni,“ segir Brynhildur.

Boðið í afmælisveislu í dag kl. 16

Brynhildur segir að baki Hallveigastaða standi þrjú kvennasamtök og félagafjöldi þeirra telur þúsundir. „Við hlúum að húsinu en við getum líka sagt að húsið hlúi að okkur. Það styður við félögin, svo við visnum ekki upp og deyjum.“

Haldið verður upp á afmæli Hallveigarstaða í dag 19. júní kl. 16:00 og er öllum áhugasömum boðið. Þar munu Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður húsnefndar Hallveigarstaða flytja ávarp og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flytur kveðju. Þá munu aðstandendur Hallveigarstaða afhenda gjöf til Veraldar – húss Vigdísar Finnbogadóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert