Ný stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýr formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýr formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. ljósmynd/Hagsmunasamtök heimilanna

Ný stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna var kjörin á aðalfundi samtakanna þann 30. maí síðastliðinn. Ásthildur Lóa Þórsdóttir er nýr formaður samtakanna og varaformaður er Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir eins og segir í tilkynningu frá samtökunum.

Aðrir í stjórn eru Guðrún Bryndís Harðardóttir gjaldkeri, Róbert Þ Bender ritari, Hafþór Ólafsson, Jóhann Rúnar Sigurðsson og Ólafur Garðarsson.

Í tilkynningunni segir að nýkjörin stjórn muni beita sér fyrir því að stjórnmálamenn taki ábyrgð sína „á þeim grófu mannréttindabrotum sem framin hafa verið á þúsundum heimila í skjóli vafasamra lagasetninga.“

„Stjórnvöld hafa með misráðnum gjörðum sínum gefið bönkum og fjármálastofnunum eftirlitslaust veiðileyfi á almenning sem hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir margar fjölskyldur. Það eru næstum níu ár frá hruni og komin tími til að hreinsa til og lyfta leyndinni af aðgerðum stjórnvalda í kjölfar þess. Almenningur á Íslandi er ekki fóður fyrir bankana og löngu kominn tími til að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna og leiðrétta afleita stöðu þeirra sem tóku gengistryggð lán á árunum fyrir hrun,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert