Reyndu ítrekað að stöðva för bílsins

Maðurinn fór út af veginum norðan megin við brúnna og …
Maðurinn fór út af veginum norðan megin við brúnna og sjá má för eftir bílinn þar. Mynd/Guðmundur Karl

Ýmsar leiðir voru farnar við það að reyna að stöðva bifreið sem lögregla veitti eftirför frá Reykjavík til Selfoss fyrr í dag, þar á meðal með naglamottulokun og akstri utan í ökutækið. Allt kom fyrir ekki og endaði ökumaðurinn á því að keyra út í Ölfusá, eins og greint hefur verið frá.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að það hafi verið athuglir lögreglumenn í eftirliti sem veittu aksturslagi bílsins athygli. Gáfu þeir ökumanninum merki um að stöðva bifreiðina til að kanna ástand hans, en þegar hann stoppaði ekki hófst eftirförin.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljóst að það yrði að stöðva ökutækið

„Það var nokkuð ljóst fljótlega hver var á þessum bíl og þær upplýsingar gáfu okkur það að það yrði að stöðva þetta ökutæki,“ segir Ásgeir. Segir hann að strax í upphafi hafi verið reynt að komast fram fyrir bílinn með það fyrir augum að reyna að hægja á ferð hans. Þegar það gekk ekki keyrðu lögreglubílar vinstra megin fyrir aftan bílinn og gáfu öðrum ökumönnum merki um að fara út í kant til að koma í veg fyrir árekstur.

Þegar ljóst var að ökumaðurinn stefndi á Selfoss var óskað liðsauka frá lögreglunni á Suðurlandi og var naglamottu komið fyrir til að reyna að stöðva för bílsins. Þegar ökumaðurinn nálgaðist sá hann hins vegar naglamottuna og náði að keyra út fyrir veginn, framhjá henni og inn á veginn aftur.

Næst var því reynt að aka á ökutækið og snúa því til að gera það óökuhæft, en með því yrði stjórninni náð af ökumanninum. Það gekk hins vegar ekki heldur og komst ökumaðurinn aftur undan. Var því ákveðið að loka Ölfusárbrú til að stöðva för mannsins. Rétt áður en hann kom að brúnni sá hann hins vegar lokunina og fór yfir á vinstri vegarhelming og loks út í ána.

Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. Mynd/Sunnlenska

Fór eins vel og hægt var 

Ásgeir segir lögregluna reyna af fremsta megni að valda sem minnstu áreiti þegar ökumönnum er veitt eftirför, en vissulega sé um hættulega athöfn að ræða. „Þetta skapar auðvitað stórkostlega almannahættu en sem betur fer fór þetta eins vel og hægt er í þetta skipti,“ segir hann.

Ökumanni bifreiðarinnar var bjargað úr ánni nokkrum mínútum eftir að hann keyrði ofan í hana og er hann ekki mikið slasaður. Bifreið hans var einnig dregin upp úr vatninu og olli því ekki umhverfisspjöllum. Þá varð ekkert eignatjón nema á einu lögreglutæki og enginn af viðbragðsaðilum slasaðist.

Fjöldi fólks tók þátt í aðgerðinni, en auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi tóku sérsveit Ríkislögreglustjóra, brunavarnir Árnessýslu, björgunarsveitir og Vegagerðin þátt í aðgerðinni. Þá voru sendir á staðinn sjúkrabílar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Auk þess var Landhelgisgæslan með kafara í viðbragðsstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert