Verið að vernda „vondu karlana“

Þórarinn óttast að Kauptúnssvæðið verði aftur leikvöllur „spólgæja“.
Þórarinn óttast að Kauptúnssvæðið verði aftur leikvöllur „spólgæja“. mbl.is/Árni Sæberg

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, telur að breytingar á öryggismálum, sem verslunin neyddist til að gera í kjölfar nýlegs úrskurðar Persónuverndar komi til með að draga úr öryggi viðskiptavina og starfsfólks í versluninni. „Við teljum þetta veikja okkar stöðu. Það er í raun búið að draga úr okkur tennurnar í þessu samhengi. Við erum með miklu vægari úrræði núna,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að skrán­ing IKEA á bíl­núm­er­um viðskipta­vina sinna og jafn­framt skrán­ing á per­sónu­upp­lýs­ing­um þeirra sem eru á lista yfir þá sem fyr­ir­tækið tel­ur óæski­lega í versl­un­inni, brytu í bága við lög. Þá þurfi IKEA að breyta sjónsviði myndavélar á þaki verslunarhúsnæðisins, enda náði það út fyrir bílastæðið og inn á bílastæði annarra verslana í kring.

„Það er búið að slökkva á því kerfi sem mátti ekki vera í gangi, það er búið að færa sjónarhorn myndavéla og eyða listum sem máttu ekki vera til. Við höfum því gengið að öllum óskum Persónuverndar og lögmaður fyrirtækisins sendi upplýsingar um það í dag, sem og staðfestingu frá þriðja aðila, sem setti upp kerfin fyrir okkur,“ segir Þórarinn sem er langt frá því sáttur við þessar breytingar. „Það er ekkert hægt að deila við þennan dómara, nema með því að fara í dómsmál, og það er ekki stemning fyrir því hjá okkur. Það er líka óljóst hvernig þau fara.“

„Mjög spælandi“ að slökkva á myndavélum

Hann tekur fram að fyrirtækið hafi ekki nýtt sér upplýsingar um bílnúmer með neinum hætti, nema ef eitthvað kom upp á. „Við vorum ekki að telja hve oft einstaklingur kom í verslunina, eða eitthvað slíkt. Það var ekkert gert við þessi gögn nema ef eitthvað kom upp á. Það er alltaf gott að vera með upptökur.“ Umrædd myndavél tók upp umferð bíla við hringtorg, en öll umfærð inn á Kauptúnssvæðið fer um hring­torgið. Gat vélin greint bílnúmer í myrkri. Hún hefur nú verið gerð óvirk.

Þórarinn er allt annað en sáttur við úrskurð Persónuverndar, en …
Þórarinn er allt annað en sáttur við úrskurð Persónuverndar, en segir þó ekki hægt að deila við dómarann. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Eins vorum við með stóra myndavél á þaki hússins, sem myndaði allt bílastæðið okkar. Sjónsvið hennar náði hins vegar aðeins út fyrir bílastæðið, meðal annars inn á stæðið hjá Costco og Toyota. Þetta er bannað og okkur finnst það alveg skelfilegt. Það gerast alls konar hlutir á svona bílastæði. Kerrur geta runnið utan í bíla, ég tala nú ekki um eftir að Costco kom inn á svæðið með allar sínar stóru kerrur. Þá hafa komið upp atvik þar sem fólk hefur dottið og meitt sig og verið keyrt utan í bíla, þannig að þetta er mikið öryggisatriði.“

Þórarinn segir viðskiptavini IKEA, og jafnvel fleiri verslana í nágrenninu, hafa haft mikinn hag af staðsetningu myndavélanna. „Við höfum bæði geta séð hvað gerðist eða útilokað að eitthvað hafi gerst. Við höfum hins vegar ekki verið að vinna með þessi gögn, enda nennir ekki nokkur einasti maður að sitja og glápa á þennan skjá. Þetta er meira sagnfræðitæki ef það gerist eitthvað.“ Eftir breytingarnar fanga myndavélarnar mun umfangsminna svæði. „Það er mjög spælandi,“ segir Þórarinn.

 Gæti orðið leikvöllur „spólgæja“

„Okkur finnst líka mjög spes að mega ekki halda lista yfir aðila sem hafa gerst brotlegir í versluninni, sem hafa beitt ofbeldi, hótað fólki, og jafnvel unnið skemmdarverk. Við megum vísa þessu fólki út en þá þurfum við að þekkja það í sjón. Ég skil alveg að það þurfi að vernda persónuupplýsingar en mér finnst að það sé verið að vernda „vondu karlana“ fullmikið í þessu samhengi. Við erum að hugsa um öryggi bæði viðskiptavina og starfsmanna og að reyna að halda vöruverði eins langt niðri og hægt er, og það er fullíþyngjandi að geta ekki haldið utan um þjófa.“

Aðspurður hvort hann óttist að þeir einstaklingar sem voru á umræddum lista muni nýta sér það að hann er ekki lengur til, svarar Þórarinn því játandi. „Á endanum mun það gerast. Það er alveg ljóst. Ég hef líka miklar áhyggjur af því að Kauptúnssvæðið, sem er stórt og mikið, verði aftur leikvöllur fyrir spólgæja sem voru hérna í gamla daga. Við náðum að úthýsa þeim með öflugum myndavélum, enda gátum við sýnt lögreglunni upptökur af mönnum reykspólandi hérna á planinu, í ofsaakstri. Nú er það ekki lengur hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert