Vilja aukinn einkarekstur flugvalla

Frá Hornafjarðarflugvelli. Vinnuhópur leggst gegn beinum styrkjum til reksturs flugvalla.
Frá Hornafjarðarflugvelli. Vinnuhópur leggst gegn beinum styrkjum til reksturs flugvalla. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einkarekstur verður aukinn í flugvallarrekstri innanlandsflugvalla gangi hugmyndir sem kynntar eru í skýrslu vinnuhóps um rekstrarform innanlandsflugvalla eftir. Í dag eru flugvellir fjármagnaðir að tveimur þriðju hluta með þjónustusamningi við ríkið og skapar núverandi kerfi ekki hvata til að nýta innviði og fjármagn sem best, eða að efla kerfið og gera það skilvirkara og þjónustuvænna. ISAVIA hefur umsjón með rekstri vallanna.

Skýrslan var birt á vef innanríkisráðuneytisins fyrir helgi og leggur vinnuhópurinn þar til að þróað verði kerfi þar sem stærstu flugvellirnir verða fjárhagslega sjálfstæðir og að niðurgreiðslur til reksturs innanlandsflugvalla fari í gegnum flugfélögin í stað beinna styrkja til reksturs flugvallanna. Markmiðið er ekki að lækka kostnað hins opinbera eða skera niður með breyttri fjármögnun.

Raunkostnaður eykur kostnaðarvitundina

Í skýrslunni segir vinnuhópurinn að einhverjir kynnu að sjá sér hag í því að reka flugvelli á sínu svæði, hvort sem það séu einkaaðilar eða sveitarfélög, m.a. til þess að hafa beina aðkomu að uppbyggingu samgöngukerfa og ferðamannaþjónustu. 

Engin samkeppni er á flugleiðum innanlands sem má fyrst og fremst skýra með smæð markaðarins, en öllum evrópskum flugfélögum er heimilt að fljúga hér á landi. Vinnuhópurinn telur þó að aukinn hvati verði til samkeppni á flugleiðum verði gerðar grundvallarbreytingar á kerfinu, og leiði jafnframt til betri þjónustu.

Á síðasta ári námu styrkir íslenskra stjórnvalda til reksturs flugvalla um tveimur milljörðum króna og þar til viðbótar koma 300 milljónir vegna reksturs flugleiða. Markmiðin eru að niðurgreiða rekstrarkostnað áætlunarflugs þar sem þjónustugjöld flugvalla eru lægri vegna ríkisstyrkja, að skapa kennslu- og einkaflugi aðstöðu til að dafna og með til almannavarnir og öryggissjónarmið í huga.

Með því að byggja verðskrá á raunkostnaði er hægt að auka kostnaðarvitund flugrekenda og fá þá til að taka aukið tillit til kostnaðar ríkisins við forgangsröðun framkvæmda. Hópurinn leggur til að stofnuð verði ný nefnd til þess að skoða þessi mál. Bendir hópurinn m.a. á að setja þurfi skilyrði fyrir styrkjum til flugs, þannig að styrkurinn renni ekki beint í vasa flugrekenda og hugsanlega setja skilyrði fyrir tíðni flugsamgangna á ákveðnum flugleggjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert