Styðja flug­liða í deil­unni við Pri­mera

Alþjóðlega flutningamannasambandið (ITF) og Evrópska flutningamannasambandið (ETF) styðja flugliða í …
Alþjóðlega flutningamannasambandið (ITF) og Evrópska flutningamannasambandið (ETF) styðja flugliða í deilu við Primera. mbl.is

Alþjóðlega flutningamannasambandið (ITF) og Evrópska flutningamannasambandið (ETF) hafa sent stuðningskveðjur til formanns Flugfreyjufélags Íslands og starfsmanna Primera Air í deilunni við flugfélagið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Í stuðningsyfirlýsingunni segir að samböndin tvö hafi undanfarið barist gegn ýmsum neikvæðum áhrifum meira „frjálsræðis“ í flugrekstri þar sem lög og reglur séu sveigðar á kostnað starfsfólks flugfélaga, t.d. í skjóli  hentifána skráningar og félagslegra undirboða. Í vaxandi samkeppni flugfélaga verði slík háttsemi sífellt algengari en hún miði m.a. að því að veikja samtakamátt launafólks í greininni.

Í bréfinu til Flugfreyjufélagsins sem undirritað er af framkvæmdastjórum flugdeilda fyrrnefndra flutningasamtaka segir einnig að Primera Air sé eitt þeirra flugfélaga sem nýti sér glufu í regluverkinu til að veikja stöðu flugliða sem starfa hjá flugfélaginu. Fullum stuðningi sambandanna er heitið við baráttu Flugfreyjufélags Íslands.

„Þessi stuðningur er Flugfreyjufélaginu og íslenskri verkalýðshreyfingu mjög mikilvægur en innan ITF og ETF eru verkalýðsfélög sem standa fyrir launafólk á öllum áfangastöðum og starfsstöðvum Primera,“ segir í tilkynningunni.

Áður höfðu Norræna flutningamannasambandið og stéttarfélögin VSFK og VSFS á Suðurnesjunum lýst stuðningi við Flugfreyjufélag Íslands í deilunni við Primera.

Stuðningsyfirlýsing ITF og ETF í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert