Varaþingmaður vill teppa neyðarlínu

Frá störfum starfsmanna Neyðarlínunnar. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar biður fólk um að …
Frá störfum starfsmanna Neyðarlínunnar. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar biður fólk um að misnota neyðarnúmerið ekki, líkt og varaþingmaður Pírata hvetur fólk til að gera. Mynd ársskýrsla 112

Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata í Suðvesturkjördæmi, hvetur fólk til að teppa símalínur Neyðarlínunnar í mótmælum gegn vopnaburði lögreglunnar. Hvatninguna sendir hann út á opinberum vettvangi á Facebook, bæði í hópnum „Pírataspjallinu“ og á hans persónulegu síðu.

Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata.
Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata. Ljósmynd/Af vef Alþingis

„Það sem við getum gert sem erum á móti sýnilegum vopnaburði lögreglunnar, er að hringja á lögregluna og tilkynna grunsamlega vopnaða menn alltaf þegar við sjáum byssur, sama hver ber þær. Ef nógu margir hringja stöðugt í Neyðarlínuna vegna ógnandi manna með skotvopn þá geta þeir þetta ekki,“ skrifar Andri Þór. 

Flestir þeirra sem tjá sig um málið gagnrýna hugmyndina þar sem uppátækið gæti bitnað á þeim sem síst skyldi. 

Misnoti ekki neyðarnúmerið

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar 112, segir Neyðarlínuna bera fullt traust til almennings að misnota neyðarnúmerið 112 ekki. „Neyðarlínan treystir því að almenningur sýni mikilvægi þjónustunnar skilning og valdi ekki viljandi truflun á henni, hér eftir sem hingað til,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Hvatning um að valda viljandi truflun á þjónustunni er vonandi sett fram án þess að það hafi verið haft í huga að aðgerðin getur valdið fólki alvarlegu tjóni.“

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. mbl.is/RAX

Hann segir sveiflur í fjölda innhringjenda til Neyðarlínu vera miklar og stundum séu álagstoppar sem Neyðarlínan á fullt í fangi með að anna.

„Ef þessar innhringingar sem verið er að gera tillögu um bætast við þegar það er mikið álag getur það valdið því að einhverjir nái ekki strax inn og valdið verulegum skaða. Iðulega skiptir hver mínúta máli í viðbragði þannig að aðgerð sem felur í sér að teppa símalínur Neyðarlínu getur valdið alvarlegu heilsutjóni eða dauða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert