Engin merki um eldgos í Kötlu

Katla er virk eldstöð undir Mýrdalsjökli.
Katla er virk eldstöð undir Mýrdalsjökli. mbl.is/Rax

„Það eru engin merki um að það sé að koma eldgos,” segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, um skjálfta­hrinu í Kötlu í gær. Í henni mældist stærsti skjálftinn 3,6 að stærð kl. 18:52. Engir aðrir skjálftar yfir 3 að stærð en í heildina mældust yfir 10 skjálftar á svæðinu. Skjálftahrinan var í austurbrún Kötluöskjunnar.

„Það hefur verið frekar róleg frá því í gær,“ segir Sigríður Magnea. Hún bendir á að þessi skjálftavirkni sem mældist í gær sé ekki óeðlileg á þessum árstíma. Síðustu ár hafa sambærilegar skjálftahrinur orðið í Kötlu yfir sumarmánuðina. Hver ástæða er nákvæmlega er ekki vitað en ein af mögulegri kenningum vísindamanna snýr að meiri snjóbráð af jöklinum á þessum tíma. „Það er ein af getgátunum en annars vitum við það ekki,“ segir Sigríður Magnea.  

Í morgun mældust einnig skjálftar í Bárðarbungu, sá stærsti mældist 3,1 að stærð kl. 6:36 en hinir tveir mældust báðir undir þremur að stærð. Sigríður Magnea segir engin tengsl á milli þessara jarðskjálfta og tilviljun að þeir hafi komið á svipuðum tíma því Katla og Bárðarbunga tilheyra ekki sömu eldstöðinni. Náttúruvársérfræðingar voru enn að vinna að því að fara yfir skjálftana í Bárðarbungu þegar mbl.is hafði samband.   

Sjá vef Veðurstofu Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert