Nota rusl til að rækta nýtt líf

Hér má sjá Jóhönnu Ásgeirsdóttur myndlistarkonu,Vigdísi Bergsdóttur verkfræðing og Ágústu …
Hér má sjá Jóhönnu Ásgeirsdóttur myndlistarkonu,Vigdísi Bergsdóttur verkfræðing og Ágústu Gunnarsdóttur. Geislahvelfing er samvinnuverkefni þeirra. Ljósmynd/Jóhanna Ásgeirsdóttir

Þrjár konur úr ólíkum áttum byggja í sumar gróðurhús úr geisladiskum og endurunnum viði. Gróðurhúsið sem ber nafnið „Geislahvelfingin“ er samvinnuverkefni tveggja myndlistarmanna, þeirra Ágústu Gunnarsdóttur og Jóhönnu Ásgeirsdóttur, og verkfræðingsins Vigdísar Bergsdóttur.

Verkefnið er hluti „Skapandi sumarstarfa“ í Kópavogi. Kveikurinn að gróðurhúsagerðinni er umhverfismál. Með verkefninu sýna þær að hægt sé að nota rusl til að rækta nýtt líf. Hópurinn leggur áherslu á að góður samverustaður geti gert gæfumun í umhverfisvernd. Hann sótti innblástur í uppfinningamanninn Buckminster Fuller og barnæsku.

Hér má sjá Ágústu og Vigdísi á byggingasvæði til að …
Hér má sjá Ágústu og Vigdísi á byggingasvæði til að fá timbur til að byggja grind undir geisladiskana. Ljósmynd/Jóhanna Ásgeirsdóttir


Ágústa og Jóhanna eru nýútskrifaðar með BA í myndlist og Vigdís er nýútskrifuð með BSc í byggingarverkfræði. Með verkefninu tvinnar hópurinn saman raunvísindi og list. Vigdís fékk hugmyndina að verkefninu þegar hún tók þátt í námsstefnu um leiðtogahæfni á sviði umhverfismála í University of Oregon í Bandaríkjunum.

Kveikurinn að verkefninu er áhugi á umhverfismálum og persónulegur áhugi kvennanna á að breyta til í lífi sínu og vera meðvitaðri um umhverfi sitt. Þær leggja áherslu á fræðslu og að koma að uppbyggjandi sjónarhorni á umhverfismál. „Við viljum nálgast umhverfismál með jákvæðum hætti. Sýna skemmtilega lausn á hvernig sé hægt að nota rusl til að rækta nýtt líf,“ segir Jóhanna.

Gróðurhúsið verður búið til úr geisladiskum.
Gróðurhúsið verður búið til úr geisladiskum. Ljósmynd/Jóhanna Ásgeirsdóttir


„Neikvætt en samt jákvætt“

Hópurinn segist hafa litið til einnar meginhugmyndar umhverfisverndarfræða í dag. Hugmyndin felst í að verkefni sé ekki aðeins vörn gegn gróðurhúsaáhrifum heldur líka samfélagslega uppbyggjandi. Þannig þjóni það tveimur hlutverkum. „Í Hollandi, sem er mjög framarlega í umhverfisverndarmálum, hafa til dæmis verið byggðir varnargarðar til að sporna við flóðum en þeir eru einnig almenningsgarðar,“ segir Ágústa. „Svona neikvætt en samt jákvætt,“ bætir Vigdís við.

Vigdís segir að þrátt fyrir að staða umhverfismála í dag sé neikvæð sé hægt að búa til eitthvað jákvætt úr því, rétt eins og með hollensku varnargarðanna. „Með því að horfa á heiminn frá öðru sjónarhorni er hægt að koma með skemmtilegan vinkil með jákvæðu viðhorfi.“

Ágústa hugsar um plönturnar sínar, í vinnuaðstöðu hópsins í LHÍ …
Ágústa hugsar um plönturnar sínar, í vinnuaðstöðu hópsins í LHÍ við laugarnesveg. Ljósmynd/Jóhanna Ásgeirsdóttir


Samverustund í góðu umhverfi geri gæfumun

Ein megináhersla hópsins í verkefninu var að búa til gott umhverfi fyrir fólk til að koma saman. Samkvæmt þeim geti samverustund í slíku umhverfi gert gæfumun í umhverfisvernd því þannig sé hægt að koma á tengingu við umheiminn. Tengingin verður til þess að maður komi fram við umhverfi sitt og samfélag af ákveðinni virðingu. Þetta eigi gróðurhúsið að vera. „Okkur langar að þetta sé umhverfi þar sem fólk geti komið saman, ræktað plöntur og notið stundarinnar,“ segir Jóhanna. 

„Umhverfismál eru vandamál sem allur heimurinn á sameiginleg,“ segir Vigdís. „Þetta eru því vandamál þar sem heimurinn þarf að sameinast til að finna lausn.“ Vigdís segir góða samverustaði kjörna í það. Þar geti allir setist við sama borðið og fundið þessas lausnir.  

Hópurinn heldur í þá kenningu að allt samanstandi af punktum …
Hópurinn heldur í þá kenningu að allt samanstandi af punktum og línum. Vigdís teiknar hér plön fyrir gróðurhúsið, sem verður í formi hvelfingar. Ljósmynd/Jóhanna Ásgeirsdóttir


Sameiginleg ást á Buckminster Fuller og áhersla á barnæsku

Það var sameiginleg ást teymisins á hönnuðinum og uppfinningamanninum Buckminster Fuller sem kom hópnum saman í janúar. Hann hefur síðan verið hópnum mikill innblástur og gróðurhúsið verður í formi upphvelfingar sem var eitt helsta byggingarform Fuller. Út frá kenningum hans leggur hópurinn áherslu á grunnformin, þríhyrninga og þá hugmynd að allt samanstandi af punktum og línum.

Ásamt því að nota byggingarstíl hans sem efnivið líta þær einnig til hugmyndafræði hans. Fuller lagði mikla áherslu á barnæsku í hugmyndum sínum og það geri hópurinn líka. „Fuller byggði uppfinningar sínar út frá því sem hann lærði þegar hann var barn,“ segir Vigdís. „Við vorum líka að fara inn á hvernig börn hugsa. Nota hugsunarhátt barna, fara út fyrir línurnar sem eru teiknaðar í kringum okkur þegar við eldumst.“

Tenging verkefnisins við barnæsku kemur einnig frá geisladiskum. „Geisladiskar voru eitthvað sem við umgengumst mikið sem börn, sem einstaklingar á tvítugsaldri. Þetta er því ákveðin nostalgía fyrir okkur,“ segir Jóhanna.

Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa í Kópavogi verður haldin 27. júlí og gróðurhúsið verður þá til sýningar. Það verður þó tilbúið fyrir þann tíma, eða um miðjan júlí, og verður þá opið almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert