Ný flugstöð rís í Vatnsmýrinni

Hekla Aurora. Norðurljósa Icelandair kemur inn til lendingar úr útsýnisflugi
Hekla Aurora. Norðurljósa Icelandair kemur inn til lendingar úr útsýnisflugi mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Gunnarsson samgönguráðherra vonast til að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýja flugstöð í Vatnsmýri á næsta ári.

„Það er í mínum huga mikilvægt að hefja sómasamlega uppbyggingu á aðstöðu fyrir farþega og starfsmenn í Vatnsmýri,“ segir Jón.

Hann hyggst jafnframt skipa nýjan starfshóp sem falið verður að meta flugvallarkosti fyrir innanlandsflugið. Sá hópur muni taka við keflinu af svonefndri Rögnunefnd, sem komst að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun væri fýsilegasti valkosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll fyrir höfuðborgarsvæðið.

Landsbyggðin fái fulltrúa

Fulltrúar ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair áttu fulltrúa í Rögnunefndinni. Jón segist jafnframt ætla að bjóða fulltrúum landsbyggðarinnar sæti í nýja hópnum.

Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá telur Ólafur Þór Ólafsson, formaður Svæðisskipulags Suðurnesja, að Hvassahraun henti ekki undir flugvöll. Þar sé enda helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja. „Þetta er í mínum huga dæmi um hvað það á eftir að skoða þessa hluti mikið betur,“ segir Jón. „Ég hef alltaf sagt að ég sjái ekki annað en að langt sé í að annar flugvöllur verði byggður. Þ.e.a.s. ef það er á annað borð ætlunin að byggja annan flugvöll annars staðar en í Vatnsmýri. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt. Ég lét vinna skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, sem kemur út fljótlega. Í mínum huga er miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri,“ segir Jón.

Tíðindin mikið gleðiefni

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect (áður Flugfélag Íslands), segir tíðindin ánægjuefni. „Ef stjórnvöld ætla að koma að byggingu flugstöðvar á næsta ári þá fögnum við því. Það hefur verið gífurlega erfitt að vinna í þessari aðstöðu á undanförnum áratugum en fá ekki möguleika á að bæta hana,“ segir Árni.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, vegna málsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »