Þriðji skjálftinn yfir 3 að stærð

Katla er virk eld­stöð und­ir Mýr­dals­jökli.
Katla er virk eld­stöð und­ir Mýr­dals­jökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Klukkan 13:17 í dag mældist þriðji skjálftinn í Kötlu á innan við sólarhring sem er yfir 3 að stærð. Skjálftinn mældist 3,4 en rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi mældist skjálfti að stærðinni 3,4 og annar að stærðinni 3,2 milli klukkan sex og sjö í morgun. Alls hafa mælst á milli 20 og 30 skjálftar á svæðinu í hrinunni, flestir á bilinu 1-2 að stærð. Engin merki eru þó um gosóróa.

„Það var einn núna rúmlega eitt sem var 3,4 og einn í gærkvöldi 3,6 sex en þess á milli hafa þeir verið allir undir þremur en nokkuð margir þó,“ segir Sig­ríður Magnea Óskars­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það hefur aukist svolítið síðan um helgina og það var ágætis hrina í gærkvöldi en svo hefur verið svona einn og einn í dag en svo hefur aðeins hægst um og róast. En við náttúrlega fylgjumst bara með þessu áfram,“segir Sigríður. 

Hún segir engin merki vera gosóróa eða nokkuð slíkt. „Það vill oft vera á þessum árstíma, þegar það er jökulbráð og fleira sem að veldur aukinni skjálftahrinu í Kötlu. Eins og staðan er í dag þarf ekkert að örvænta.“

Skjálftarnir í þrívídd

Hér að neðan má sjá þrívíddarmyndir af skjálftunum sem mælst hafa í Mýrdalsjökli en myndirnar eru af vefsíðu sem byggir á tóli sem for­rit­ar­inn Bær­ing Gunn­ar Steinþórs­son gerði fyrir nokkrum árum. Myndirnar sýna með sjónrænum hætti dýpi og stærð skjálftanna og er litakóðunin á myndunum sú sama og Veðurstofan notar og táknar aldur skjálftanna. Yngstu skjálftarnir eru rauðir, þá appelsínugulir, gulir, bláir og loks eru þeir elstu dökkbláir.

Vefur Bærings bygg­ist á gögn­um frá Veður­stof­unni og birt­ir aðeins þá jarðskjálfta sem hafa verið yf­ir­farn­ir af jarðskjálfta­fræðing­um Veðurstofunnar. Hann er upp­færður á sex­tíu sek­úndna fresti og því er hægt að fylgj­ast með virkn­inni í raun­tíma.

Skjálftahrina í Mýrdalsjökli í þrívídd.
Skjálftahrina í Mýrdalsjökli í þrívídd. Mynd/Bæring Gunnar Steinþórsson
Mynd/Bæring Gunnar Steinþórsson
Mynd/Bæring Gunnar Steinþórsson
mbl.is