Berskjaldaðri fyrir spákaupmönnum

Kæmi til þess að krónan yrði tengd við gengi erlends gjaldmiðils, eins og til að mynda evrunnar, gæti það leitt til þess að Íslendingar yrðu berskjaldaðri fyrir árásum spákaupmanna sem aftur gæti leitt til þess að koma yrði á fjármagnshöftum á nýjan leik til þess að bregðast við þeim. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, þar sem fjallað er um kosti og galla fastgengisstefnu.

Vísað er í umræðu hér á landi um mögulega gengistengingu krónunnar við erlendan gjaldmiðil, þá einkum evruna, en sú umræða hefur einkum snúist um stefnu Viðreisnar um svonefnt myntráð. Settur hafi verið á fót starfshópur til þess að fara yfir peningastefnu landsins með það fyrir augum hvernig megi tryggja efnahagslegan stöðugleika til framtíðar. Mikilvægt sé fyrir Ísland að fara vandlega yfir kosti og galla þess að taka upp breytta stefnu.

Bent hafi verið á að ekkert þróað hagkerfi búi við jafnlítinn gjaldmiðil og fljótandi gengi án fjármagnshafta. Vísbendingar séu um að frjálst flæði fjármagns, sveigjanlegt gengi og sjálfstæð peningastefna geti hugsanlega ekki þrifist samhliða. Fastgengisstefna geti fyrir vikið leitt til meiri fyrirsjáanleika í gengismálum og verðstöðugleika sem og minni verðbólguþrýstings. Enn fremur minni kostnaðar í gjaldeyrisviðskiptum.

Kæmi ekki í veg fyrir sveiflur í raungengi

Hins vegar geti fastgengisstefna einnig leitt til ákveðinna vandamála. Rifjað er upp að Ísland hafi eitt sinn búið við fastgengi en líkt og í tilfelli fleiri minni hagkerfa hafi sú leið reynst ófær með tímanum. Fastgengi myndi setja aukinn þrýsting á önnur stjórntæki íslenskra stjórnvalda þar sem stýrivextir yrðu að fylgja stýrivöxtum myntsvæðisins sem miðað væri við. Það þýddi þörf á auknum mótaðgerðum til þess að reyna að tryggja stöðugleika.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og flokkur hans Viðreisn hafa talað fyrir …
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og flokkur hans Viðreisn hafa talað fyrir fastgengisstefnu í gegnum myntráð. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fastgengi myndi sömuleiðis draga úr getu Íslands til þess að bregðast við utanaðkomandi áföllum og ekki koma í veg fyrir sveiflur í raungengi. Aðlögun hagkerfisins yrði að eiga sér stað í gegnum aðlögun á innlendum launamarkaði og á verðlagi sem geti bæði gengið hægar fyrir sig og verið sársaukafyllra vegna meiri samfélagslegs kostnaðar til skemmri tíma. Þátt fyrir sveigjanleika sé svigrúm ekki mikið til þess á íslenskum vinnumarkaði.

Enginn augljós kostur sé fyrir hendi þegar komi að því að velja erlendan gjaldmiðil vegna mögulegrar gengistengingar til þess að ná fram þeim efnahagsáhrifum sem talað sé um að gætu skilað sér með gengistengingu. Meðal annars vegna þess að áfangastaðir íslensks útflutnings séu ekki þeir sömu og innflutningur til landsins kemur einkum frá. Sama eigi við þegar komi að því að ákveða hvaða gengi skuli miða við í þeim efnum.

Óbreytt fyrirkomulag raunhæfasti kosturinn

Enn fremur er bent á að sá fyrirsjáanleiki í gengismálum sem gert sé ráð fyrir að náist fram með fastgengisstefnu næði ekki til óvissu varðandi gengissveiflur gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem hefðu þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá þýddi fastgengi að Ísland byggi ekki við nauðsynlegan stuðning frá peningastefnu viðmiðunarlandsins og að við þær aðstæður yrði nær útlokað fyrir Ísland að standast árás spákaupmanna á krónuna.

Hins vegar myndi aðild að stærra myntbandalagi í gegnum tvíhliða samning skila sér í stofnanalegri umgjörð og stuðningi. Kæmi til þess að pólitískur vilji stæði á ný til þess að ganga í Evrópusambandið breytti það myndinni þar sem innganga í sambandið myndi þegar fram liðu stundir leiða til aðildar að evrusvæðinu. Þar með myndi Ísland njóta góðs af trúverðugleika peningastefnu svæðisins sem gæti leitt til meiri stöðugleika og lægri vaxta.

Með hliðsjón af öllu sem að framan er nefnt er það mat OECD að núverandi fyrirkomulag peningamála, með krónuna og fljótandi gengi, sé raunhæfasti kosturinn sem Íslandi standi til boða eins og staðan sé í dag. Stofnunin bendir á að fljótandi gengi krónunnar verji íslenskt efnahagslíf frá utanaðkomandi áföllum og geti auðveldað efnahagslega aðlögun líkt og hafi gerst í kjölfar bankahrunsins. Ísland hafi þannig rétt út kútnum hraðar en mörg evruríki.

AFP
mbl.is