Jón Trausti laus úr gæsluvarðhaldi

Frá vettvangi í Mosfellsdal.
Frá vettvangi í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms um að Jón Trausti Lúthersson sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á manndrápi í Mosfellsdal. Lögmaður Jóns Trausta segir greinilegt að Hæstiréttur hafi ekki fallist á að það væri sterkur grunur um samverknað eða hlutdeild í málinu. 

Jón Trausti og Sveinn Gestur Tryggvason, sem grunaðir eru um að hafa orðið Arn­ari Jóns­syni Asp­ar að bana fyr­ir tveim­ur vik­um í Mos­fells­dal, voru úr­sk­urðaðir af Héraðsdómi Reykjavíkur í áfram­hald­andi gæslu­v­arðhald til 21. júlí vegna al­manna­hags­muna í síðustu viku

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns Trausta, kærði dóminn til Hæstaréttar og á fréttavef Ríkisútvarpsins var greint frá því að hann hefði komist að gagnstæðri niðurstöðu. Þegar mbl.is hafði samband við Svein Andra hafði hann ekki séð dóminn en sagði að Hæstiréttur hefði fallist á sjónarmið sín um að ekki væri sterkur grunur um samverknað eða hlutdeild Jóns Trausta í málinu. 

„Málið snýst um manndráp og almennt séð leiða slíkir málavextir til þess að gerandi sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. En þá komum við að spurningunni um aðild Jóns Trausta. Það var byggt á því í héraðsdómi að það væri hugsanlegt að aðkoma hans að málinu væri annaðhvort samverknaður eða hlutdeild,“ segir Sveinn Andri.

„En til þess að unnt hefði verið að frelsissvipta Jón Trausta hefði þurft að vera í málinu sterkur grunur um samverknað eða hlutdeild í manndrápinu. Hæstiréttur hefur greinilega komist að þeirri niðurstöðu að þessi sterki grunur væri ekki til staðar í dag.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert