Annars flokks í baráttunni gegn mansali

Skýrsluhöfundar segja Ísland bæði áfanga- og viðkomustað vinnu- og kynlífsþræla.
Skýrsluhöfundar segja Ísland bæði áfanga- og viðkomustað vinnu- og kynlífsþræla.

Ísland er annars flokks þegar kemur að baráttunni gegn mansali, að mati bandaríska utanríkisráðuneytisins, sem hefur kortlagt baráttuna í heiminum síðan árið 2010. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu. Ísland hefur verið í fyrsta flokki síðastliðin fimm ár, en nú fellur það niður um flokk.

Er það mat bandaríska utanríkisráðuneytisins að íslensk stjórnvöld hafi ekki staðið sig nógu vel í að takast á við mansal síðasta árið. Grikkland og Kýpur eru einu vestur-evrópsku ríkin, ásamt Íslandi, sem eru talin annars flokks í þessari baráttu.

Það er þó talið jákvætt að á Íslandi hafi verið opnuð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, þar sem þolendur mansals geti fengið aðstoð og þjónustu. Þar að auki hafi verið komið á fót sérhæfðu teymi til að rannsaka mansal og fræða ríkisstarfsmenn um glæpi sem því tengjast.

Bent er á að enginn hafi verið sóttur til saka eða dæmdur fyrir mansal á Íslandi síðastliðin sex ár. Þá hafi dregið úr rannsóknum á meintum gerendum. Það er mat skýrsluhöfunda að baráttan gegn mansali á Íslandi sé ekki eins kraftmikil og áður. Þess vegna er Ísland fært niður um flokk.

Enn áfangastaður kynlífs- og vinnuþræla

Íslenskum stjórnvöldum er ráðlagt að leggja sig fram um að rannsaka, sækja til saka og dæma þá sem grunaðir eru um mansal. Það þurfi að þjálfa og fræða lögreglu, saksóknara og dómara í að þekkja og bera kennsl á mansalsglæpi. Mikilvægt sé að þessar stéttir kunni að afla sönnunargagna gegn meintum gerendum í mansalsmálum til að síður þurfi að reiða sig á framburð þolenda.

Þá sé mikilvægt að byggja upp traust á milli lögreglu og fórnarlamba mansals. Fórnarlömbin verði að fá vernd, öruggan stað til að búa á og atvinnuleyfi. Einnig er bent á mikilvægi þess að hvetja fórnarlömbin til að taka þátt í rannsókninni.

Í skýrslunni kemur fram að Ísland sé enn þá, líkt og síðustu ár, bæði áfangastaður og viðkomustaður kvenna í kynlífsþrælkun og fólks í vinnuþrælkun. Konurnar komi aðallega frá Austur-Evrópu, Eystrasaltslöndunum og Suður-Ameríku og séu í kynlífsþrælkun á börum og næturklúbbum. Þá sé fólk frá Eystrasaltslöndunum, Austur-Evrópu, Suður-Ameríku og Austur-Asíu í vinnuþrælkun í byggingar- og ferðamannaiðnaði og á veitingastöðum.

Bent er á að starfsmannaleigur séu sérstaklega varasamar og fólki, sem komi til landsins á slíkum forsendum, sé hætt við að lenda í vinnuþrælkun. Yfirleitt séu gerðir samningar við fórnarlömbin í heimalöndunum og þeim gert að starfa á Íslandi í ákveðinn tíma til að komast hjá því að greiða skatta og stéttarfélagsgjöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert