Tugir frá Icelandair mættu á fund hjá Wow

Opinn kynningarfundur hjá WOW air fyrir flugstjóra og flugmenn fór …
Opinn kynningarfundur hjá WOW air fyrir flugstjóra og flugmenn fór fram á Nauthóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í fljótu bragði sýnist mér að það hafi verið hátt í 150 manns á þessum fundi og ég get trúað því að af þeim hafi 70 til 80 verið flugmenn Icelandair sem vilja skoða hvað þessi vinnuveitandi hefur upp á að bjóða,“ segir Jóhann Óskar Borgþórsson, varaformaður Félags íslenska atvinnuflugmanna. 

Greint var frá því á mbl.is að WOW air stæði fyrir op­num fundi fyr­ir flug­menn í dag þar sem starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins yrði kynnt fyr­ir mögu­leg­um um­sækj­end­um. Fundarboðið kom skömmu eftir að fjölda flug­manna Icelanda­ir var sagt upp störf­um og tug­um flug­stjóra til­kynnt að þeir yrðu færðir niður í stöðu flug­manns næsta vet­ur.

„Ég lít fyrst og fremst á það að menn séu þarna að lýsa yfir óánægju með starfsmannastefnu Icelandair gagnvart okkur flugmönnum. Ég held að ég tali fyrir flestalla þegar ég segi að þetta sé orðið pínlega leiðinlegt.“

Jóhann segir að kjörin sem WOW air kynnti á fundinum hefðu komið samstarfsmönnum sínum á óvart. „Í samtölum við kollega mína kom á óvart að þeir virðast vera að bjóða betri kjör en menn bjuggust við, menn voru ekki með miklar væntingar en nú get ég ekki dregið dul á það að menn horfa á þetta sem raunverulegan valkost.

Fjölmennt var á fundinum í dag.
Fjölmennt var á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun segja ekki alla söguna 

Þótt WOW air geti ekki jafnað Icelandair þegar kemur að útborguðum launum eru aðrir þættir sem vega upp á móti, sér í lagi árstíðarsveiflan, að sögn Jóhanns. Hann segist hafa fengið sex uppsagnarbréf og sagt upp fjórum sinnum á þeim ellefu árum sem hann hefur starfað hjá fyrirtækinu. 

„Við erum ekki bara að velta fyrir okkur útborguðum launum, menn eru til dæmis að skuldbinda sig hjá Icelandair alla starfsævina, en það kom kollegum mínum á óvart að þetta er mjög nálægt því sem Icelandair er að bjóða.“

mbl.is