Efast um talningu ferðamanna

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða sem m.a. reka Flugrútuna, segist efast um að talning ferðamanna um Leifsstöð sé rétt. Samkvæmt opinberum gögnum hafi ferðamönnum fjölgað hratt á árinu en hann segir að þeir merki ekki sambærilega aukningu hjá Flugrútunni.

„Undir venjulegum kringumstæðum ætti ávallt sambærilegt hlutfall ferðamanna að nýta Flugrútuna,“ segir Kristján.

 „Við efumst um að talningin um Leifsstöð sé rétt. Ferðamaður er ekki ferðamaður hér nema hann gisti að minnsta kosti eina nótt. Annars vegar eru erlendir verkamenn sem hingað koma taldir með í þessum tölum auk annarra útlendinga sem hér starfa. Innflytjendum hefur fjölgað í 10,6% af mannfjölda við upphafs árs úr 8% árið 2012. Hins vegar hafa margir keypt ódýrt flug til Íslands og fljúga svo áfram með öðru flugfélagi.

Þegar flugið er ekki keypt sem einn miði neyðist ferðamaðurinn til að fara út um brottfararhliðið og aftur inn komumegin til þess að bóka sig í flugið. Við vitum ekki um hve stóran hóp er að ræða.

En fjöldi Bandaríkjamanna hefur tvöfaldast á fyrstu fjórum mánuðum ársins og Spánverjum og Kanadamönnum hefur sömuleiðis fjölgað hratt. Þrátt fyrir það merkjum við ekki sambærilega aukningu í Flugrútunni sem við rekum. Undir venjulegum kringumstæðum ætti ávallt sambærilegt hlutfall ferðamanna að nýta Flugrútuna,“ segir Kristján.

Framkvæmdastjóri Kynnisferða segir að fátt annað komist að hjá stjórnvöldum varðandi ferðamennsku en skattlagning og gjaldtaka. Samt sem áður hafi ríkið þegar miklar tekjur af ferðamönnum en leggi lítið til uppbyggingar innviða fyrir þá sem ferðast um landið. Í kjölfar gengisstyrkingar krónu hafi hegðun ferðamanna breyst. Ferðamenn leigi nú ódýrari bíla, borði ódýrari mat, fækki dagsferðum og kjósi ódýrari ferðir.

Ferðaþjónustan stendur á tímamótum, að sögn Kristjáns í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag. „Dregið hefur úr afkomu í ferðaþjónustu vegna aukins kostnaðar sem rekja má til launahækkana og aukinnar samkeppni, gengi krónu hefur styrkst hratt, sem dregur úr tekjum og fælir frá viðskiptavini, stefnt er að aukinni skattheimtu og gjaldtökur á vinsælum ferðamannastöðum eru handan við hornið. Á sama tíma hefur meðalfjölda gistinótta ferðamanna fækkað í þrjár úr fjórum. Stjórnvöld hafa sýnt þessu lítinn skilning,“ segir hann.

„Helstu stefnumál stjórnvalda um þessar mundir er gjaldtaka og skattheimta. Fátt annað er á dagskrá. Samt sem áður skipar ferðaþjónustan nú sess á meðal grunnatvinnuvega landsins. Það þarf að huga betur að atvinnugreininni til þess að hún geti blómstrað til lengri tíma.

Ef vel á að standa að ferðaþjónustunni hér á landi þarf að fjárfesta í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Við Íslendingar ættum að leggja metnað okkar í að hafa glæsilega aðstöðu sem er vel skipulögð og snyrtileg. Viljum við Íslendingar það ekki? Í staðinn er eytt miklum tíma í að karpa um hver eigi að greiða fyrir uppbygginguna,“ segir Kristján.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »