Færri unglingar taka bílpróf

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Lægra hlutfall 17 ára unglinga tók bílpróf í fyrra en fyrir 23 árum. Einnig hefur orðið hlutfallsleg fækkun árganga sem eru komnir með bílpróf 18 og 19 ára gamlir. Samskiptastjóri Samgöngustofu telur að ungt fólk sé orðið meðvitaðra um umhverfi sitt og ferðamátar séu fjölbreyttari en áður.

„Það sama er í gangi hér á landi eins og alls staðar annars staðar í Vestur-Evrópu,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, þegar hún er innt eftir viðbrögðum við fækkuninni.

Hún segir hana minni hér en víða annars staðar, enda sé það sums staðar beinlínis stefna stjórnvalda að fækka ungum ökumönnum. „Það var til að mynda tekin ákvörðun í Hollandi fyrir nokkrum árum að bjóða ungi fólki ókeypis í almenningssamgöngur, til að hvetja ungt fólk til að nota þær frekar en að taka sjálft ökupróf.“

Þórhildur segir að hér á landi hafi stjórnvöld ekki gripið til neinna aðgerða til að fresta töku ökuprófs hjá unglingum og almenningssamgöngur hafi heldur ekki breyst að ráði. „Það sem hefur breyst er kannski aukin meðvitund hjá ungu fólki um umhverfi sitt. Síðan hafa ferðamátar orðið fjölbreyttari en hjólreiðar hafa til dæmis aukist mjög mikið,“ segir Þórhildur.

Á þessari töflu má sjá að 83,6% þeirra sem fæddir …
Á þessari töflu má sjá að 83,6% þeirra sem fæddir eru 1977 tóku bílpróf 17 ára. 72,6% þeirra sem urðu 17 ára í fyrra tóku bílpróf. mbl.is/kort

Ökuprófið kostar um 200 þúsund krónur

83,8% fólks fætt árið 1977 tók bílpróf þegar það var 17 ára árið 1994. Sama ár höfðu 88,3% 18 ára tekið bílpróf og 90,8% 19 ára ungmenna. 72,6% 17 ára höfðu tekið bílpróf í fyrra.

Séu tölurnar skoðaðar sést að 3.303 17 ára unglingar tóku bílpróf árið 1994 en 3.110 í fyrra. Árið 2007 tóku flestir 17 ára bílpróf, 4.019. Hlutfallslega flestir 17 ára tóku hins vegar bílpróf árið 1997, 87%.

Frá árinu 2008 hefur þeim fækkað jafnt og þétt, í tölum sem og hlutfallslega, sem taka bílpróf 17 ára. 

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Samgöngustofu má gera ráð fyrir því að kostnaður við ökunám sé um 200 þúsund krónur. Þó skuli hafa í huga að einstaklingar séu misjafnir og þurfi á mismörgum ökutímum að halda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert