„Aðstaðan er algjörlega óviðunandi“

Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss …
Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss er skammt ofan við fossana. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Ástæðan er náttúrulega sú að aðstaðan þarna er algjörlega óviðunandi,“ segir Lárus L. Blöndal, einn landeigenda að Hraunsási II í Borgarfirði, spurður um ástæður gjaldtöku við bílastæðið við Hraunfossa. Fyrirhugað er að gjaldtaka hefjist á morgun.  

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag er svæðið friðlýst og er óheim­ilt að taka þar gjald, nema að fengnu leyfi Um­hverf­is­stofn­un­ar. Slíkt leyfi liggur ekki fyrir sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá stofn­un­inni.

Sjálfur er Lárus staddur erlendis en honum hefur borist afrit af bréfi frá Umhverfisstofnun vegna málsins, til aðila sem leigja af honum þennan hluta af landinu, sem hann kveðst eiga eftir að skoða betur. Að sögn Lárusar eru það leigutakarnir sem standa að gjaldtökunni.

Segir hann ljóst að gera þurfi verulegar breytingar á svæðinu til að koma því í betra horf. „Við erum með þarna ófremdarástand sem þarf að bæta úr og við viljum hafa eitthvað um það að segja hvernig það verður gert,“ segir Lárus.

Eins og að horfa á umferðarmiðstöð

Þá bendir hann á að reistur hafi verið veitingastaður á svæðinu, sem Umhverfisstofnun hafi gefið samþykki fyrir án nokkurs samráðs við nærliggjandi landeigendur. Í kjölfarið hafi aðstæður ekki batnað, aukið álag sé á bílastæðinu sem er í landi hans og annarra landeigenda auk þess sem ásýnd svæðisins hafi versnað.

„Þetta er eins og að horfa á umferðarmiðstöð. Og ekkert bara það heldur spillir þetta verulega útsýninu frá veginum. Við viljum því færa bílastæðin yfir veginn og gera breytingar sem eru að okkar mati nauðsynlegar til að þetta náttúruvætti njóti sín og að ásýndinni frá okkar landi verði ekki raskað með ógrynni rútubíla,“ segir Lárus.

Spurður hvort til standi að halda fyrirhugaðri gjaldtöku til streitu, þrátt fyrir bréf Umhverfisstofnunar, kveðst Lárus ekki geta svarað fyrir um það að svo stöddu enda fari leigutakar með framkvæmd gjaldtökunnar og enn hafi hann ekki fengið bréf frá stofnuninni.

Spurður um 22 milljóna fjárveitingu til að gera lagfæringar við bílastæðin við Hraunfossa segir Lárus að landeigendur hafi hvorki haft frumkvæði að þeirri beiðni né vitað um hana. Hann hafi rætt við fulltrúa Umhverfisstofnunar eftir að hafa lesið um styrkveitinguna í fjölmiðlum, m.a. um færslu á bílastæðinu.

„Þeir ætluðu að boða fund með mér til að ræða með hvaða hætti yrði staðið að þessu og það var áður en að hugmyndir komu upp um þessa gjaldtöku. En sá fundur hefur ekki verið boðaður enn þá, ég bara bíð eftir að heyra frá þeim,“ segir Lárus að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert