Fá undanþágu til að stýra farþegaskipum

Maðurinn fékk þær upplýsingar frá fyrirtækinu að réttindi hans væru …
Maðurinn fékk þær upplýsingar frá fyrirtækinu að réttindi hans væru fullnægjandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Almennt er óheimilt að veita undanþágu til að gegna stöðu skipstjóra á farþega- og flutningaskipum, nema í neyðartilvikum, og má undanþáguna aðeins veita í eins skamman tíma og nauðsynlegt er.

Þó er að finna ákvæði í lögum, þar sem mælt er fyrir um skilyrði þess að mega gegna stöðu skipstjóra og vélstjóra á farþega- og flutningaskipum, að heimilt sé að veita undanþágu þegar um er að ræða farþegaskip sem sigla á tilteknu farsviði og á tilteknu tímabili.

Þetta segir í svari Samgöngustofu við fyrirspurn mbl.is varðandi undanþágu þess eðlis að skipstjórar megi stjórna stærri skipum en þeir hafa réttindi til, líkt og í tilfelli skipstjóra á hjólabát sem siglir á Jökulsárlóni, og hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna slyss sem varð við lónið fyrir tveimur árum. Maðurinn bakkaði hjólabátnum á hóp fólks sem stóð og fylgdist með þyrlu lenda við lónið og varð kona undir öðru afturhjóli bátsins. Hún lést samstundis.

Lögmaður mannsins hefur bent á að fyrirtækið sem hann starfaði hjá og gerir út bátinn, Jökulsárlón ehf, hafi sagt réttindi hans fullnægjandi til að stýra bátnum vegna undanþágu sem það hefði frá Samgöngustofu. Má leiða að því líkur að fyrirtækið hafi fengið slíka undanþágu og nefnd er hér að ofan, enda er hjólabátnum aðeins siglt á Jökulsárlóni.

„Hann kom hreint til dyr­anna og lagði spil­in á borðið hvaða rétt­indi hann hafði. Hon­um var sagt að þau dygðu til að stýra hjóla­bátn­um út á lónið,“ sagði Áslaug Gunnlaugsdóttir, lögmaður mannsins, í samtali við mbl.is í síðustu viku.

Með leyfi fyrir 12 farþega en flutti 24

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um umrætt slys er hjólabáturinn mun stærri en maðurinn hafði réttindi til að stýra. Í skýrslunni segir að til að stýra Jaka, umræddum hjólabát, þurfi að hafa gild réttindi til að stjórna farþegaskipum undir 65 brúttótonnum. Skipstjórinn, sem ákærður er, hefur hins vegar aðeins réttindi til að stjórna skipum sem eru undir 30 brúttótonnum. „Réttindi skipstjóra í umrætt sinn veita ekki leyfi til flutnings fleiri en 12 farþega. Þegar slysið varð voru 24 farþegar um borð. Samkvæmt skipstjóranum uppfyllti hann þær kröfur um réttindi sem eigandi Jaka gerði við ráðningu hans. Skipstjóri var með gild ökuréttindi í flokki B. Þau veita ekki heimild til farþegaflutninga,“ segir í skýrslunni. Réttindaleysi skipstjórans er einn af þeim þáttum sem rannsóknarnefndin tiltekur í orsakagreiningu á slysinu.

Að sögn lögmanns skipstjórans telur hann hins vegar ekki hægt að rekja orsök slyssins til einhvers sem hann bar ábyrgð á. „Hann er launþegi hjá fyr­ir­tæk­inu og hver er ábyrgð þess að ráða fólk til starfa með til­skil­in rétt­indi? Um er að ræða óhappa­til­vik og þá spyr maður um ábyrgð út­gerðar­inn­ar,“ sagði Áslaug.

Reglum um hjólabáta ábótavant 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa áréttaði í skýrslu sinni að skipstjórar sem ráðnir eru til að stjórna hjólabátum hafi þau réttindi sem krafist er í lögum, og var tillögunni beint til rekstaraðila bátanna.

Í skýrslunni er jafnframt tekið fram að reglum um hjólabáta sé ábótavant og er því beint til Samgöngustofu að skoða sérstaklega skráningu, kröfur og réttindi til að aka og sigla hjólabátum. Ekki sé nægjanlegt að miða kröfur eingöngu við haffæri þar sem bátunum er einnig ekið með og án farþega á landi.

Þá bendir rannsóknarnefndin sérstaklega á það, í ljósi þessa slyss, að reglur verði settar um öryggisbúnað slíkra farartækja, með tilliti til þess að útsýni ökumanns við akstur þurfi að vera gott og auka þurfi öryggi þegar ekið er. Eins þurfi hemla-, stýris- og ljósabúnaður að vera í lagi.

Í svari Samgöngustofu til mbl.is segir að umræddur hjólabátur hafi á sínum tíma verið fluttur inn sem bátur, og því skráður í skipaskrá en ekki ökutækjaskrá. Nú er hins vegar verið að fara yfir tillögur rannsóknarnefndarinnar að bættu öryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert