Segir flugmenn vanta hjá Icelandair í vetur

Icelandair sagði nýlega upp 115 flugmönnum. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur …
Icelandair sagði nýlega upp 115 flugmönnum. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur gert áhafnaútreikninga fyrir veturinn og segir að flugmenn muni vanta í almennt flug félagsins miðað við uppsagnirnar og flugáætlun. mbl.is/Árni Sæberg

Miðað við flugáætlun Icelandair og uppsagnir 115 flugmanna sem greint var frá nýlega  verður ekki nóg af flugmönnum hjá félaginu til að sinna flugi í vetur. Þetta segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, en félagið fær afhenda áhafnaráætlun frá flugfélaginu og gerir sjálft útreikninga miðað við flugáætlun.

„Mjög dapurt innlegg í upphaf viðræðna

Félagsmenn voru í dag boðaðir til fundar og var farið yfir stöðuna í kjölfar uppsagnanna. Örnólfur segir að félagið harmi þessa ákvörðun og unnið sé að því að fá Icelandair til að breyta um stefnu. Þá segir hann að félagsmenn séu með lausa kjarasamninga í lok september og að uppsagnirnar séu ekki gott veganesti í þá vegferð. „Þetta er mjög dapurt innlegg í upphaf viðræðna. Við viljum meina að það muni vanta flugmenn í vetur,“ segir hann og bætir við að félagið geri ráð fyrir að Icelandair hafi gengið of langt í uppsögnum.

Hann segir FÍA miða útreikninga sína við flugáætlun Icelandair sem það fái afhenda til yfirferðar. Hann segir ljóst að það bil sem þurfi að brúa í nokkra mánuði í vetur verði ekki gert nema með yfirvinnu flugmanna eða með að draga uppsagnir til baka. Segir hann að Icelandair hafi áður reynt að fá fólk til að vinna yfirvinnu, en að ólíklegt sé að viðbrögðin verði jákvæð þegar beiðnin byggi á þeirri staðreynd að öðrum flugmönnum hafi verið sagt upp.

WOW air hélt opinn kynningarfund fyrir flugstjóra og flugmenn í …
WOW air hélt opinn kynningarfund fyrir flugstjóra og flugmenn í vikunni, en hann fór fram í Nauthóli. Eggert Jóhannesson

Segir flugmenn Icelandair hafa sótt um hjá WOW

Örnólfur segir að félagið fundi þessa dagana stöðugt með Icelandair og muni áfram halda félagsmönnum sínum upplýstum um stöðu mála. „Við viljum meina að þetta séu þreytt og lúin vinnubrögð. Það er líka umhverfið sem er að breytast, fleiri að leita að flugmönnum og þá er til lítils að segja upp mannskap yfir veturinn ef hann kemur svo ekki til baka,“ segir hann og vísar til þess fyrirkomulags sem hefur tíðkast hjá Icelandair að segja upp þeim starfsmönnum sem eru lægstir á starfsaldurslista og ráða þá aftur næsta vor.

Í kjölfar uppsagnanna hjá Icelandair hélt WOW air kynningarfund fyrir flugmenn og auglýsti í blöðum að félagið væri að leita að 115 flugmönnum til starfa. Tugir starfsmanna Icelandair mættu á fundinn og segir Örnólfur að hann viti til þess að flugmenn félagsins hafi þegar sótt um starf hjá WOW air og fleiri séu að íhuga stöðu sína.

mbl.is