Hafa safnað 30 milljónum fyrir Grænlendinga

Flóðbylgja skall á þorpinu Nuugaatsiaq með hræðilegum afleiðingum.
Flóðbylgja skall á þorpinu Nuugaatsiaq með hræðilegum afleiðingum. AFP

Landssöfnunin Vinátta í verki vegna hamfaranna á Grænlandi gengur framar öllum vonum skipuleggjenda. Á aðeins tólf dögum hafa safnast vel yfir 30 milljónir króna, með framlögum frá þúsundum einstaklinga, fyrirtækja, klúbba og félaga. „Þjóðarsamstaða hefur myndast um að Íslendingar sendi næstu nágrönnum og vinum kærleikskveðju á tímum sorgar og óvissu,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar.

Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðalda gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq, aðfararnótt 18. júní. Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands hefur nú lýst því yfir að Nuugaatsiaq verði mannlaust að minnsta kosti í eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan ógurlega hrifsaði til sín, auk einbýlishúsanna. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq, 1.400 manna bæ í grenndinni, og er vel um alla hugsað.

Allt féð fer til íbúa Nuugaatsiaq

„Mánudaginn 19. júní tóku Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn höndum saman um landssöfnunina Vinátta í verki til að senda strax þau skilaboð til vina okkar á Grænlandi að í Íslendingum ættu þeir vini í raun. Jafnframt var ákveðið að ekki eyri yrði varið í auglýsingar eða kostnað, heldur færi hver einasta króna óskipt til Grænlands,“ segir í tilkynningunni.

Fénu verður farið í þágu íbúa Nuugaatsiaq í samvinnu við fólkið sjálft, sveitarfélagið og þá aðila sem munu hjálpa fórnarlömbunum að byggja upp líf sitt að nýju.

Nuugaatsiaq er á vesturströnd Grænlands.
Nuugaatsiaq er á vesturströnd Grænlands. Mynd/Google Maps

200.000 krónur frá Grímsey

Strax í upphafi sló Vinátta í verki öll fyrri met í söfnunum Hjálparstarfs kirkjunnar í framlögum einstaklinga. Reykjavíkurborg og Borgarbyggð brugðust samstundis við, sem og Árneshreppur, Djúpivogur, Grýtubakkahreppur, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Kópavogur, Mýrdalshreppur, Skagaströnd og Ölfus (sjá kort).

„Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur skorað á öll sveitarfélög að mynda kærleikskeðju um allt land. Hann hefur eins og margir fleiri minnt á landssöfnunina á Grænlandi þegar snjóflóðið ógurlega féll á Flateyri,“ segir í tilkynningu Vináttu í verki.

Síðastliðinn fimmtudag hóf björgunarsveitin á Flateyri söfnun í þágu íbúa Nuugaatsiaq og skorar á Flateyringa um allan heim að sýna nú þakklæti og vináttu í verki. Söfnunarféð verður afhent fulltrúum Vináttu í verki á Flateyri á morgun klukkan 15.

Þá finna Grímseyingar til samkenndar með eyjarskeggjum í litlu þorpi, og í dag bárust fréttir um 50.000 kr. framlag frá kvenfélaginu og 150.000 frá Kiwanis-klúbbnum. „Sannarlega höfðinglegt framlag frá fámennu samfélagi,“ segir í tilkynningunni.

Einnig er hafin söfnun í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins, undir stjórn barnanna í sveitinni, og fólk og félög víða um land eru að skipuleggja sérstakar safnanir eða viðburði.

50 milljónir er markmiðið

„Skipuleggjendur Vináttu í verki hvetja landsmenn til að sýna frumkvæði og hefja sérstakar safnanir í sem flestum sveitarfélögum, samtökum og fyrirtækjum. Upphæðir eru algjört aukaatriði: Markmiðið er að mynda þjóðarsamstöðu um kærleikskveðju til nágranna í sorg,“ segir í tilkynningunni.

 „Tafarlaus og kærleiksrík skilaboð Íslendinga og Færeyinga hafa verið eins og ljósgeisli gegnum það myrkur sem lagðist yfir Grænland eftir harmleikinn í Nuugaatsiaq.“

Landssöfnunin Vinátta í verki mun halda áfram af fullum krafti næstu vikuna a.m.k. en markmiðið er að safna 50 milljón krónum.  Hæstu framlag til Vináttu í verki hafa komið frá Reykjavíkurborg, 4 milljónir kr., 2 milljónir frá Brim, Eimskip og Kópavogsbæ, 1 milljón frá Air Iceland Connect, Landsvirkjun og Hafnarfjarðarbæ. Þá hafa styrktarklúbbur Kiwanis, Húsasmiðjan, Landsbankinn og Arion baki lagt fram 500 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert