Nýtt stöðuvatn í Dómadal

Göngumenn ofan við vötnin tvö: Dómadalsvatn (t.v.) og hið nýja …
Göngumenn ofan við vötnin tvö: Dómadalsvatn (t.v.) og hið nýja stöðuvatn. Ljósmynd/Guðni Olgeirsson

Fólki sem var á göngu um Dómadal á milli Landmannahellis og Landmannalauga brá nokkuð í brún á dögunum er það gekk fram á nýtt stöðuvatn á svæðinu. Vatnið er við hlið Dómadalsvatns og er álíka stórt. Það lokar nú veginum um Dómadalsleið að hluta og því er ekki hægt að aka á milli Landmannalauga og Landmannahellis beinustu leið eins og vant er á þessum árstíma. Lækur seytlaði á milli vatnanna tveggja þegar vatnsyfirborðið var sem hæst og því ekki ómögulegt að urriði, sem er að finna í Dómadalsvatni, hafi fundið sér leið yfir í hið nýja stöðuvatn. Það er þó ljóst að það mun hverfa síðar í sumar og er þess í raun að vænta á næstu vikum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru litlar tjarnir oft á þessum slóðum, m.a. á vorin, en óvenjulegt er að þær séu nú orðnar að stóru stöðuvatni þó að dæmi séu um það á árum áður. Skýringarnar eru ekki fullkunnar en grunnvatnsstaðan er há á svæðinu um þessar mundir.

Fjallvegir eru flestir opnir þessa dagana en hluti Dómadalsleiðar er …
Fjallvegir eru flestir opnir þessa dagana en hluti Dómadalsleiðar er ófær vegna hins nýja stöðuvatns sem þar hefur myndast. Skjáskot/Vegagerðin

Skoða að gera hjáleið

Akvegurinn um Dómadal var opinn fyrr í sumar en var svo lokað nýverið vegna vatnavaxtanna. Til greina kemur, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, að gera hjáleið, en slíkt þarf að fá samþykki opinberra aðila þar sem vegurinn er innan friðlandsins að Fjallabaki. Óvíst er að af því verði í sumar en ef sagan endurtekur sig að ári verður það tekið til skoðunar. 

Guðni Olgeirsson, áhugamaður um gönguleiðir að Fjallabaki og höfundur fræðslurits um Hellismannaleið, var á göngu með hóp um um leiðina nýverið er hann gekk fram á stöðuvatnið. „Þetta er auðvitað mjög áhugavert, að þarna sé allt í einu komið stöðuvatn,“ segir Guðni í samtali við mbl.is. Hann hefur oftsinnis gengið um svæðið áður en aldrei fyrr séð annað eins. „Það eru mjög sérstakar aðstæður í vötnum inni á Fjallabaki núna. Það er ekki mikill snjór eða bleyta en grunnvatnsstaðan er svo há.“ 

Guðni segir það þekkt frá fyrri tíð að mikið sé í vötnunum. „En það hefur oft verið tengt miklum snjóalögum eða rigningum.“

Hér sást vötnin tvö og stærð þeirra vel. Myndin er …
Hér sást vötnin tvö og stærð þeirra vel. Myndin er tekin 30. júní. Ljósmynd/Kristín Vala

Búist við að vatnið þorni upp

Landverðir í Friðlandi að Fjallabaki vakta nýja vatnið og kanna ástand þess reglulega. „Það er tekið að minnka í því og innan fárra vikna verður það líklega horfið og hægt að opna veginn um Dómadal aftur,“ segir Hringur Hilmarsson landvörður. Hann segir að eftir að vatnið þornar upp verði að bíða í einhverja daga að minnsta kosti áður en óhætt verður að opna veginn. Vegagerðin mun meta hvenær slíkt er tímabært.

Hringur segir að þeir sem vel þekki til segi fleiri ár frá því að vatn sem þetta myndaðist á svæðinu. Hann segist ekki vita hver orsökin sé, því verði sérfræðingar að svara. „Ég hef heyrt að skýringin gæti verið sú að snjórinn hafi bráðnað óvenju hratt í ár og svo hafi rignt ofan í þetta. Það rennur ekkert úr þessu vatni, jarðvegurinn þarf að taka við öllu vatninu en er mettaður og hefur ekki við.“

Grófur utanvegaakstur

Hringur segir að ekki sé hægt að stjórna náttúrunni, hún verði að hafa sinn gang. „Fólk þarf að sætta sig við [lokanir á veginum].“

Það hafa hins vegar ekki allir gert. Dæmi eru um að fólk hafi ekki virt lokanir sem eru beggja vegna vegkaflans ófæra. „Fólk hefur smeygt sér á milli, komið að vatninu og ekki nennt að snúa við. Það hefur þá keyrt frekar gróflega utan vegar sem hefur valdið gróðurskemmdum.“

Hér má sjá hvar nýja vatnið liggur yfir veginum um …
Hér má sjá hvar nýja vatnið liggur yfir veginum um Dómadal og er hann því ófær. Ljósmynd/Guðni Olgeirsson

Nýipollur?

Að sögn Guðna er vatnið vissulega fallegt þó að það hefti för akandi ferðamanna um svæðið sem sé miður og afar bagalegt fyrir ferðaþjónustu að Fjallabaki. „En þetta gleður augað svo sannarlega,“ segir hann. 

Hringur landvörður segist kalla vatnið Nýjapoll. Þó að nafnið beri ekki glæsileika þessa nýja stöðuvatns með sér rímar það vel við önnur örnefni á svæðinu, s.s. Ljótapoll og Hnausapoll. 

Hvort „Nýipollur“ sé kominn til að vera næstu sumur verður tíminn að leiða í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert