Breyta villimennskutexta eftir lambaslátrun

Tveir bílar frá Kúkú Campers í miðbæ Reykjavíkur.
Tveir bílar frá Kúkú Campers í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Erna Ýr Öldudóttir

Húsbílaleigan Kúkú Campers hefur tekið úr birtingu texta á vef fyrirtækisins þar sem ferðamenn eru hvattir til að borða „hvað sem er af öllum þjóðlendum“ og stendur til að skerpa á orðalaginu áður en textinn verður birtur að nýju. Fyrirtækið hefur fengið fjórar ábendingar í morgun um að mistúlka megi textann í tengslum við atvikið í Berufirði í fyrrakvöld.

Viktor Ólason, framkvæmdastjóri Kúkú Campers, segir þarna um að ræða létt grín, sem er rauði þráðurinn í öllu markaðsefni fyrirtækisins, og verið að vísa til 27. greinar náttúruverndarlaga þar sem segir að öllum sé heimilt að „tína ber, sveppi, fjallagrös og jurtir og einnig skeldýr og söl, þang, þara og annan fjörugróður í fjörum“ í þjóðlendum.

Viktor áréttar að sauðaþjófarnir hafi ekki verið á bílum frá fyrirtækinu eða í nokkrum viðskiptum við það, svo ólíklegt sé að þeir hafi lesið textann. „En í ljósi umræðunnar núna og ef svo ólíklega vill til að einhver hafi misskilið textann þá er sjálfsagt að endurskoða þetta,“ segir Viktor.

Textinn sem fyrirtækið hefur ákveðið að breyta.
Textinn sem fyrirtækið hefur ákveðið að breyta. Skjáskot/Af vef Kúkú Campers

Engar kvartanir fengið vegna viðskiptavina sinna

Á síðasta ári rataði þessi sami texti fyrirtækisins í umræðuna og sagði þá Steinarr Lár, annar eiganda Kúkú Campers, að fyrirtækið hafi bara átt einn húsbíl þegar heimasíðan var opnuð en síðasta sumar voru bílarnir orðnir 190 og því þyrfti fyrirtækið að horfa til aukinnar samfélagslegrar ábyrgðar. Fyrirtækið á í dag yfir 250 bíla.

Viktor segir fyrirtækið ekki hafa fengið eina einustu kvörtun undan viðskiptavinum fyrirtækisins vegna villimennsku á borð við atvikið í Berufirði, vegna viðskiptavina að ganga örna sinna á víðavangi eða vegna ferðamanna á bílum frá fyrirtækinu sem gista í bílastæðum en ekki á merktum tjaldsvæðum. 

„Ég er ekki að segja að þeir geri það ekki,“ heldur Viktor áfram en bætir við að fyrirtækið fari ítarlega yfir reglur með viðskiptavinum sínum, afhendi tímaritið Áningu með yfirliti yfir öll tjaldsvæði landsins auk þess sem Kúkú Campers selja Útilegukortið sem veitir aðgang að miklum fjölda tjaldsvæða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert